142. löggjafarþing — 23. fundur,  4. júlí 2013.

Seðlabanki Íslands.

20. mál
[22:35]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þegar hæstv. fjármálaráðherra mælti fyrir þessu máli þakkaði ég honum fyrir að hafa augun á boltanum, þ.e. þeim mikilvægustu viðfangsefnum sem við Íslendingar eigum við að glíma um þessar mundir. Það að efla heimildir Seðlabankans í þessu efni er ákaflega brýnt. Ég þekki þau álitaefni sem eru uppi varðandi Persónuvernd sem fyrrverandi formaður efnahags- og viðskiptanefndar og við fjölluðum um þau á nefndarfundi í dag. Ég tel að um þau sé búið eins vel og kostur er og vil nota þetta tækifæri og fagna því að enn og aftur hefur tekist í þinginu góð samstaða þvert á flokka þar sem allir standa saman sem einn um að treysta heimildir Seðlabankans til að taka á sínum stóru viðfangsefnum.

Þar eru gríðarlegir þjóðarhagsmunir undir og auðvitað ekki síður í því að efla bankann sem eftirlitsstofnun. Ég hvet ráðherrann til að halda áfram að efla þær eftirlitsstofnanir sem nú heyra fleiri en Seðlabankinn undir ráðherrann því að frá því að 1. umr. um þetta mál fór fram hefur komið fram skýrsla um Íbúðalánasjóð sem sýnir okkur að 270 milljarða reikningur varð á endanum fyrir það að við höfðum ekki nægilega gott eftirlit og aðhald með fjármálastarfsemi af hálfu hins opinbera. Það á að vera okkur enn sterkari áminning um skyldu okkar að vinna að málum sem þessum hratt og vel í þinginu, þó vanda allan málatilbúnað en standa saman um sameiginlega hagsmuni þjóðarinnar í einu og öllu.