142. löggjafarþing — 23. fundur,  4. júlí 2013.

dagskrártillaga.

[23:02]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Það er rétt sem formaður Sjálfstæðisflokksins sagði hér áðan, um er að ræða mjög óvenjulegt mál. Komið hefur fram að bandaríska leyniþjónustan hefur krafið öll helstu fyrirtækin á netinu, allar helstu veiturnar sem svo eru kallaðar, um persónuupplýsingar um okkur öll, ekki bara um Bandaríkjamenn. Það hefur verið upplýst og staðfest að njósnað hefur verið um íslenska borgara.

Við erum að tala um Facebook, Google, Skype, og hvað þetta allt saman heitir. Heimsbyggðin stendur öll á öndinni, en það þorir nánast enginn að gera neitt vegna þvingana sem stórveldið Bandaríkin beitir heimsbyggðina. Það er við þær óvenjulegu aðstæður sem Íslendingar eiga að sýna hugrekki (Forseti hringir.) og slá skjaldborg um þann aðila sem ljóstrað hefur þessu upp í þágu (Forseti hringir.) mannréttinda og lýðræðis (HHG: Og okkar allra.) og okkar allra. (BirgJ: Heyr, heyr.)