142. löggjafarþing — 23. fundur,  4. júlí 2013.

dagskrártillaga.

[23:11]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég held að það hafi verið í dag frekar en í gær sem Evrópuþingið samþykkti í mikilli samstöðu að hefja opinbera rannsókn á njósnunum sem Evrópuþingið og stofnanir Evrópusambandsins hafa sætt af hálfu bandarískra leyniþjónustuaðila eða öryggisaðila á grundvelli upplýsinga sem nefndur maður kom á framfæri. Þeir taka það mál nokkuð alvarlega og ég frábið mér útúrsnúninga og sérstaklega frá hæstv. utanríkisráðherra Íslands við þessar aðstæður.

Mér finnst lítil reisn yfir því, óskaplega lítill hugur í mönnum, ef tillaga um þetta, þ.e. frumvarp sem flytjendur væru væntanlega tilbúnir að láta ganga umræðulaust til nefndar ef það fengist tekið hér á dagskrá, fái að vera í nefnd fram á haustið. Það er nú meira kjarkleysið og aumingjadómurinn (Gripið fram í.) ef menn geta ekki einu sinni lofað málinu að fara til skoðunar í þingnefnd.

Ég segi já, herra forseti. Mér blöskrar að menn skuli vera svo mjúkir í hnjáliðunum, væntanlega gagnvart stórveldinu, að þeir þori ekki einu sinni að leyfa skoðun á málinu.