142. löggjafarþing — 23. fundur,  4. júlí 2013.

dagskrártillaga.

[23:16]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Líkt og ég greindi frá við umræðu um málið fyrr í kvöld eru þessi mál ávallt afskaplega sérstök, viðkvæm, geta verið mjög persónuleg. Ég held að við vitum öll sem erum hér inni um hvað þetta mál snýst. Það snýst að sjálfsögðu um það að hér á í hlut einstaklingur sem á yfir höfði sér ákæru og handtökuskipun. (Gripið fram í.) Þingið hefur í hendi sér að bregðast við því ástandi sem upp er komið eftir uppljóstranir hans með þingsályktun og ýmsum öðrum hætti en þeim að taka á dagskrá Alþingis mál sem snýst um að veita ríkisborgararétt.

Ég held að það hljóti að vera okkur öllum verulega mikið umhugsunarefni hvers konar fordæmi væri sett af stað með því í svona máli hjá einstaklingi sem á engin tengsl við Ísland með nokkrum hætti. Ég vísa því til föðurhúsanna að einn einstaklingur (Forseti hringir.) hafi á fyrri árum tekið ákvarðanir um ríkisborgararétt annarra manna. Það hefur að sjálfsögðu aldrei gerst nema með stuðningi Alþingis. (Gripið fram í.)