142. löggjafarþing — 23. fundur,  4. júlí 2013.

veiðigjöld.

15. mál
[23:43]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég ætla að nota þetta tækifæri til þess að lýsa þeirri von minni að umræðan um mikilvægi íslensks sjávarútvegs og mikilvægi þess að greinin búi við almennileg skilyrði og sæti ekki ofurskattlagningu, (Gripið fram í.) heldur verði hér þróað kerfi sem nálgist að sækja það sem við höfum kallað auðlindarentu fram til þessa, verði aðeins þroskaðri en hún hefur verið um þetta mál.

Hér eru veiðigjöldin sett í samhengi við bætur til öryrkja og aldraðra. Hér eru veiðigjöldin sett í samhengi við bága stöðu ríkissjóðs. Stjórnarandstaðan í þessu máli hefur verið gjörsamlega prinsipplaus, algerlega, Samfylkingin alveg sérstaklega. Hún er algerlega búin að yfirgefa hugmyndafræðina að baki auðlindarentu og hófsömum sanngjörnum sköttum á grundvelli þess að menn njóti forgangs að takmarkaðri auðlind. Það hefur ekki eitt einasta skynsamlegt orð fallið í umræðunni á þeim grundvelli. [Háreysti í þingsal.] Þetta hefur einungis snúist um stöðu ríkissjóðs. Stjórnarandstaðan er algerlega prinsipplaus í þessu máli. [Frammíköll í þingsal.]

(Forseti (EKG): Þögn í þingsalnum.)

Ef ég gæti fengið að klára. Menn verða bara að þola það sem hafa verið algjörlega prinsipplausir í umræðu (Forseti hringir.) um veiðigjöld og grundvöll þeirra …[Frammíköll í þingsal.] (Forseti hringir.) — Ef ég gæti fengið hljóð, virðulegi forseti. Menn verða bara að þola það, þeir sem hafa verið svona gjörsamlega prinsipplausir, að þurfa að spóla til baka á byrjunarreit. [Frammíköll í þingsal.] (Forseti hringir.) þegar við höldum áfram þessari umræðu næsta vetur. (Gripið fram í: Það er enginn hagfræðingur í landinu …) (Forseti hringir.)