142. löggjafarþing — 23. fundur,  4. júlí 2013.

veiðigjöld.

15. mál
[23:49]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Okkur Íslendingum sem þó byggjum efnahagslíf okkar meira og minna á nýtingu náttúruauðlinda hefur ekki enn þá tekist að temja okkur hugsunarháttinn á bak við auðlindarentu, eðlilega, hóflega auðlindarentu sem þeir greiða eingöngu sem hafa sérleyfi til nýtingar á náttúruauðlindum Íslands. Það er, virðulegi forseti, eðlileg krafa að þjóðin fái hlutdeild í þeim umframhagnaði sem myndast hjá þeim aðilum sem hafa þessi sérleyfi.

Virðulegi forseti. Hér er verið að víkja af þeirri braut að taka hófleg veiðigjöld, fá hóflega auðlindarentu fyrir sérleyfi á nýtingu á auðlindum sjávar. Það hljótum við öll að harma. Þetta sýnir forgangsröðun ríkisstjórnarinnar og sýnir líka að hún er að kasta stríðshanska inn í samfélag okkar sem hefur deilt um þetta mál áratugum saman. Það er kominn tími til að sjávarútvegurinn fái stöðuga umgjörð en sé ekki settur með þessum hætti af núverandi ríkisstjórn milli stríðandi fylkinga um þessi mál. Það er það sem er að gerast hér, virðulegi forseti. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)