142. löggjafarþing — 23. fundur,  4. júlí 2013.

veiðigjöld.

15. mál
[23:52]
Horfa

Skúli Helgason (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Því miður hefur það verið þannig um áratugaskeið að heiftúðugar deilur hafa verið um kvótakerfið, um stjórn fiskveiða á Íslandi. Það er afar mikilvægt verkefni fyrir þingheim að taka það verkefni alvarlega að reyna að byggja brú á milli andstæðra sjónarmiða. Ég held að það hafi verið afar mikilvægt skref sem fyrri ríkisstjórn steig með því að taka upp þá skipan, í fyrsta sinn, að útgerðin borgaði sanngjörn veiðigjöld til þjóðarinnar. Það er þjóðin sem á nytjastofna sjávar samkvæmt lögum, en því miður hefur skipanin verið með þeim hætti að útgerðin hefur eingöngu greitt málamyndagjald til eiganda auðlindarinnar, gjarnan á bilinu 1–2% af hagnaðinum.

Það er dapurlegt að verða vitni að því að hér er ný ríkisstjórn að stíga skref til baka og þannig draga úr líkunum á því að sátt myndist í sjávarútvegi. Vonandi er það eingöngu bráðabirgðaráðstöfun sem verður tekin til baka í hinni endanlegu skipan.