142. löggjafarþing — 23. fundur,  4. júlí 2013.

veiðigjöld.

15. mál
[23:53]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hún er vissulega vandfundin, hin eina rétta aðferð við að finna út sanngjarnt gjald fyrir afnot af sameiginlegum auðlindum þjóðarinnar. En vitundin úti í samfélaginu er sú að hér sé gengið allt of langt, hér sé allt of bratt farið í það að lækka auðlindagjöldin sem voru tekin upp fyrir skömmu síðan. Þess vegna er sú tortryggni sem einkennir umræðuna. Þess vegna söfnuðust á örfáum dögum 35 þúsund undirskriftir, ákall til forseta lýðveldisins um að vísa þessu máli til þjóðarinnar.

Sjálfur hefur forsetinn sagt að engin mál séu betur til þess fallin en þau sem lúta að nýtingu auðlindanna og sjávarútvegsins til að greiða um atkvæði. Þess vegna verður vandfundin sú leið fyrir forseta Íslands að undirrita þessi lög og vísa þeim ekki til þjóðarinnar. Það er ástæða til að nota atkvæðagreiðsluna og atkvæðaskýringarnar til þess að skora á forseta lýðveldisins að standa nú við stóru orðin um lýðræðisvakninguna og verða við ákalli 35 þúsund Íslendinga um að vísa þessu máli til þjóðarinnar. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)