142. löggjafarþing — 24. fundur,  5. júlí 2013.

kosning níu manna og jafnmargra varamanna í stjórn Ríkisútvarpsins.

[00:50]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Þetta mál er hið dapurlegasta því að í gær voru hér greidd atkvæði eftir 3. umr. um lög um Ríkisútvarpið. Greidd voru atkvæði um breytingartillögu um að fjölga stjórnarmönnum um tvo á grundvelli þess að breikka ætti grundvöll stjórnar, fjölga sjónarmiðum, efla lýðræði. Fram kom í máli hv. þingmanns, formanns allsherjar- og menntamálanefndar, Unnar Brár Konráðsdóttur, sem hún byggði á samtölum við þingflokksformenn stjórnarflokkanna, að samkomulag væri um það að þessir tveir nýju menn mundu skiptast milli meiri hluta og minni hluta. Nú hafa þau tíðindi borist að svo verði ekki, að þessi fjölgun hafi verið til þess að stjórnarflokkarnir fari úr ríflega helmingi upp í 2/3 hluta stjórnarmanna Ríkisútvarpsins. (Gripið fram í.) Þetta eru samvinnustjórnmálin. (Gripið fram í.)

Því miður þurfum við að horfa upp á það að hv. þingmenn fara ekki með rétt mál í pontu og ég lýsi þeirri ábyrgð á hendur formönnum stjórnarflokkanna, sem ég gerði grein fyrir þessu máli, því að ég tel það talsvert alvarlegt þegar við teljum að ákveðið samkomulag sé í gildi sem staðfest hefur verið af þingflokksformönnum að ekki sé staðið við það.

Ég spyr hv. þingmenn hvort það sé svona sem við viljum vinna, hvort þetta séu samvinnustjórnmálin sem er búið að boða hér. Er þetta það sem koma skal fyrir komandi kjörtímabil, svona vinnubrögð? Snýst þetta virkilega bara um helmingaskipti, að stjórnarflokkarnir hafi þurft sex sæti en (Forseti hringir.) ekki fimm í stjórn Ríkisútvarpsins? Og ef svo er þykir mér þetta ansi hreint dapurlegt. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)

(Forseti (EKG): Forseti biðst afsökunar á því að klukkan gekk eitthvað rangt í púltinu þannig að klukkan og púltið gáfu af örlæti sínu hv. þingmanni nokkuð ríflegan tíma.)