142. löggjafarþing — 24. fundur,  5. júlí 2013.

kosning níu manna og jafnmargra varamanna í stjórn Ríkisútvarpsins.

[01:10]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Ég er formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins. Ég á minn hlut í þeim misskilningi sem olli því að hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir kemur í pontu og lýsir yfir að það sé samkomulag um að það verði 5:4.

Ég ætla fyrst og síðast að biðja samherja minn, Unni Brá Konráðsdóttur, afsökunar á því að ég skuli með þessum hætti hafa fært henni boð sem aðrir tala síðan um og gera hana að ósannindamanni í pontu. Fyrst og síðast bið ég hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur afsökunar á því.

Mér þykir leiður þessi misskilningur. Ég ræddi hann á þingflokksformannafundi í morgun og get litlu um hann breytt. Ég bið jafnframt aðra þingflokksformenn sem ég ræddi við um þetta mál afsökunar á þeim orðum mínum að fyrir lægi samkomulag sem ekki var fyrir hendi.