142. löggjafarþing — 24. fundur,  5. júlí 2013.

kosning níu manna og jafnmargra varamanna í stjórn Ríkisútvarpsins.

[01:15]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Áður en ég byrja vil ég taka undir með hv. þm. Kristjáni L. Möller. Ég held að hann hafi komið hér með góða tillögu. Ég tel að við búum nú í einhvers konar lýðræðisríki. Í þessu lýðræðisríki eru nýtekin við stjórnvöld sem ákveða að gera breytingu á lögum þannig að þau hverfi frá faglega skipaðri stjórn yfir ríkisútvarpi allra landsmanna yfir í stjórn sem endurspeglar valdahlutföll á Alþingi. Það eitt og sér finnst mér ömurleg staða.

Að auki nýta menn sér mistök sem hér eru gerð og hér hafa verið rædd til að koma sér í þá stöðu að geta skipað sex af níu fulltrúum, tvo þriðju stjórnar. Það voru ekki úrslit kosninga. (Gripið fram í.) Þessir flokkar eru með 51% atkvæða. Ég veit ekki betur. Það er algjörlega nýtt fyrir mér ef þeir eru komnir með tvo þriðju í þinginu, virðulegi forseti.

Mér finnst þetta leiðinlegt mál. Það er til mikils vansa fyrir Alþingi en ekki síst (Forseti hringir.) er skömmin þessarar ríkisstjórnar fyrir að ætla að ganga svona fram og (Forseti hringir.) gera þetta að sínu mikilvægasta máli í upphafi ferilsins.