142. löggjafarþing — 24. fundur,  5. júlí 2013.

kosning níu manna og jafnmargra varamanna í stjórn Ríkisútvarpsins.

[01:20]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég vil bara að það komi fram hér, vegna þess að hæstv. forsætisráðherra lét þau orð falla við mig þegar ég fór úr ræðustól áðan að ég ætti ekki að vera að tjá mig um samkomulag eða ekki samkomulag sem ég hefði ekki komið nálægt. Það vill þannig til að ég starfaði sem þingflokksformaður VG í byrjun þessarar viku þegar við áttum þessi samtöl og ég átti því aðild að því samkomulagi sem þingflokksformenn, bæði Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, hafa nú staðfest hér af miklum myndarskap að var gert og hv. formaður allsherjar- og menntamálanefndar gerði einnig hér í ræðustól. Ég vil þakka þeim öllum fyrir það sem þær hafa lagt fram í þessu efni. Mér finnst þeirra framganga vera stórmannleg, en kannski heldur síðri framganga annarra forustumanna þessara flokka.