142. löggjafarþing — 24. fundur,  5. júlí 2013.

kosning níu manna og jafnmargra varamanna í stjórn Ríkisútvarpsins.

[01:22]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Helgi Hjörvar sagði ósatt í ræðu áðan. Hann breytir því ekki með því að koma aftur í ræðustól og æpa á þingmenn að hann hafi á einhvern hátt sem hann reynir að skilgreina sjálfur sagt satt. Það er einfaldlega ósatt sem hv. þingmaður sagði hér áðan. Hann verður að sætta sig við það.

Það er líka rangt sem hv. þingmaður fullyrðir, eins og komið hefur fram í máli annarra þingmanna, m.a. hv. þingflokksformanna, að gert hafi verið um þetta formlegt samkomulag. Það er sagt frá því að menn hafi misskilið hlutina hér á göngunum. Svo kemur hv. þm. Helgi Hjörvar hingað upp og reynir að bjarga sér frá fyrri ósannindum (HHj: … enda þótt maður sé …) með því að … (HHj: … göngunum …) (BirgJ: Heyr, heyr.)

Virðulegur forseti. Nú (Forseti hringir.) vil ég í þessari stuttu ræðu benda hv. þm. Helga Hjörvar á það að hann geti ekki komist undan því að hafa sagt ósatt með því að æpa á þingmenn. Hann heldur þá áfram að æpa úr sæti sínu. Ég geri athugasemd við þetta, virðulegur forseti. Það liggur fyrir að hv. þingmaður sagði ekki satt áðan.