142. löggjafarþing — 24. fundur,  5. júlí 2013.

þingfrestun.

[01:59]
Horfa

Forseti (Einar K. Guðfinnsson):

Háttvirtir alþingismenn. Komið er að lokum síðasta fundar Alþingis að þessu sinni. Sumarþingi, sem við köllum svo, lýkur nú með þingfrestun til 10. september. Það hefur staðið í rétt tæpan mánuð og þingfundadagar orðið 19. Haldnir hafa verið 24 þingfundir á þessum dögum. Þeir hafa staðið í 110 klst. Lengst var umræðan um veiðigjöldin sem stóð í röska 21 klukkustund og umræðan um Ríkisútvarpið sem stóð í rúmlega 13 tíma.

Tíu sérstakar umræður fóru fram og ráðherrar svöruðu 31 fyrirspurn óundirbúið og þremur fyrirspurnum á þingskjölum var svarað á fyrirspurnafundi. 34 þingmál voru lögð fram, þar af voru 15 frumvörp og hafa 11 þeirra orðið að lögum. Sjö tillögur hafa komið fram og hlutu tvær þeirra samþykki þingsins.

Fastanefndirnar hafa haldið 66 fundi samtals, flesta í atvinnuveganefnd eða 18, og stóðu nefndarfundir í u.þ.b. 100 klst. Á fundina komu 315 gestir.

Af þessu yfirliti má sjá að sumarlota Alþingis hefur verið annasöm og snörp og afgreidd hafa verið allmörg mál á þessum mánaðartíma.

Við alþingismenn erum nú að hefja nýtt kjörtímabil og í ræðu minni við forsetakjörið á þingsetningardaginn setti ég fram sjónarmið mín um störf og starfshætti Alþingis. Mér sýnist í megindráttum að við förum vel af stað þó óneitanlega hafi ég grillt í kunnuglega takta á þessu sumri og sumir meira að segja kunnuglegir úr eigin fari á umliðnum árum.

Ég hef hug á því að ræða við forustumenn þingflokkanna í sumar um reynsluna af sumarþinginu og hvernig þeim umbótum megi koma á sem ég gerði að umtalsefni við þingsetningu. Enn fremur vil ég vinna að því með formönnum flokkanna að koma sem fyrst á laggirnar þingmannanefnd sem haldi áfram því starfi sem unnið hefur verið að undanfarin misseri við að endurskoða þingsköpin.

Ég vil við lok þessa fundar þakka háttvirtum alþingismönnum samstarfið og þá sérstaklega varaforsetum, formönnum þingflokka og formönnum stjórnmálaflokkanna.

Starfsfólki Alþingis þakka ég sömuleiðis fyrir þeirra mikilvægu störf.

Hlé verður nú á þingstörfum til 10. september og ég óska þess að hv. alþingismenn, svo og starfsfólk þingsins, geti hvílst og notið sumarsins áður en við komum til starfa á ný að loknu sumarhléi og þingmenn sinnt sínum mikilvægu verkefnum og skuldbindingum utan veggja Alþingis.