142. löggjafarþing — 25. fundur,  10. sept. 2013.

störf ríkisstjórnarinnar, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[14:06]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir verkefnayfirlitið sem hann fór yfir í ræðu sinni. Það minnti mig að einhverju leyti á ferðasögu sem ég las einhvern tímann þar sem áfangastaðir og viðkomustaðir voru taldir upp en ekkert var um það hvert ferðin stefndi, af hverju hún væri farin, hverjar væru stóru línurnar í ferðasögunni. Það er kannski sú umræða sem ég hefði vonast eftir að fá fram hér í dag, hvert stefnir í raun en ekki bara upptalning verkefna, mörg hver ágæt og verðug svo að það sé nú líka sagt.

Ríkisstjórnin sem við sjáum nú hér í þinginu að loknu sumarhléi á auðvitað við það að stríða að stuðningur við hana dalar. Það er um margt skiljanlegt því að boginn var spenntur hátt fyrir síðustu kosningar. Við vitum það öll sem erum stödd í þessum sal að margir áttu von á feitum tékka inn um lúguna strax eftir kosningar, að minnsta kosti daginn eftir stjórnarmyndun, og að sá tékki mundi jú ekki kosta ríkissjóð krónu. Nú eru 100 dagar liðnir, ekkert hefur gerst svo sem enn þá en hæstv. forsætisráðherra er nokkuð bjartsýnn. Hann hefur kannski ástæðu til að vera það enda kemur á daginn, bara með fréttum í dag, að skuldastaða heimilanna hefur batnað verulega, að vísu ekki vegna aðgerða ríkisstjórnarinnar heldur vegna þess að íslenskt samfélag er á uppleið, hér hefur verið tekist á við vandann á undanförnum árum. Þetta undirstrika nýjar tölur Hagstofu Íslands. Í gögnum Hagstofunnar kemur fram að umfang skuldavanda heimilanna eftir hrun fer minnkandi. Íslenskum heimilum sem hafa neikvætt eigið fé í fasteign sinni hefur fækkað um tæplega 7.500 síðan fjöldi þeirra náði hámarki 2010. Heimili í þessari stöðu hafa ekki verið færri síðan 2008. Sama þróun endurspeglast í samanlögðu neikvæðu eigin fé þessara heimila sem hefur helmingast frá árinu 2010 úr því að vera rúmir 166 milljarðar í að vera rúmur 81 milljarður. Þetta er jákvæð þróun og það er eðlilegt að við gleðjumst yfir henni á meðan nefndir ríkisstjórnarinnar skoða frekari skuldaleiðréttingar.

Það var gott að hæstv. forsætisráðherra nefndi kjarasamninga sem eru fram undan því að þar eru sannarlega blikur á lofti. Þar mun skipta gríðarlegu máli hvernig tekst til, bæði fyrir fólkið í landinu og fyrir almennt efnahagslíf. Við vitum það öll í þessum sal að á árunum fyrir hrun jókst ójöfnuður mjög. Það var réttlætt með því að góðærið væri slíkt að öllum gengi betur en áður. Síðan eftir hrun, þegar aðgerðir þáverandi ríkisstjórnar skiluðu auknum jöfnuði, var því stundum svarað af hálfu hægri manna: Ja, nú hafa það allir jafn skítt. Þar var hins vegar litið fram hjá því í fyrsta lagi að við vorum samfélag sem var að berjast við að koma sér upp úr djúpri kreppu og í öðru lagi því að jöfnuður getur verið mikilvægt tæki til þess að bæta samfélagið, til þess að efla velsæld. Allar rannsóknir sýna að samfélögum þar sem jöfnuður er lykilatriði farnast betur en þar sem ójöfnuður er mikill. Til þess þarf að horfa við gerð komandi kjarasamninga. Þar þarf að horfa til þess hvernig við getum bætt kjör hinna verst settu í hópi almennings. Það þýðir lítið að tala um verðbólguskrið þegar kemur að þeim sem lægst hafa launin, hvort sem það er verkafólk eða leikskólakennarar eða aðrir í umönnunarstéttum, þegar sama fólk sér þær hækkanir sem hafa orðið á toppunum á hinum almenna vinnumarkaði. Þess vegna er að sjálfsögðu mikilvægt að stjórnvöld gangi fram af ábyrgð þannig að það verði raunveruleg kaupmáttaraukning sem fylgi nýjum kjarasamningum, en horfi jafnframt til þess að þeir samningar verði nýttir til að auka jöfnuð.

Horfum líka til þess að vaxandi launaskrið meðal fjármálafyrirtækja er áhyggjuefni þar sem þarf að fylgjast vel með þróuninni, ekki síst þar sem ríkið hefur lagt í mikinn kostnað við að endurskipuleggja íslensk fjármálafyrirtæki. Það er óviðunandi að þar skammti topparnir sér ofurlaun að nýju. Kjör almennings í landinu ættu hins vegar að vera stóra viðfangsefnið. Það ræddum við fyrir kosningar. Við vitum að margir kvíða hverjum mánaðamótum. Þar skiptir miklu að jafnaðarmennskan verði höfð að leiðarljósi.

Það eru ekki bara blikur á lofti við gerð kjarasamninga, það eru líka blikur á lofti í ríkisrekstrinum þar sem mér finnst stundum hvað rekast á annars horn í málflutningi stjórnarliða. Við fengum að sjá forgangsmál ríkisstjórnarinnar, að skerða tekjur ríkisins um 10 milljarða á þessu ári og því næsta með því að breyta sérstaka veiðigjaldinu, og almenningur horfði á útgerðarmenn í stærstu útgerðum landsins greiða sér milljarða í arð í kjölfarið og þannig sýndu þeir okkur í verki að allt þetta tal um að sérstaka veiðigjaldið mundi valda hér atvinnumissi hundruð sjómanna var ekki rétt. Sérstaka veiðigjaldið hefði vissulega skert arðgreiðslur þessa tiltekna forréttindahóps.

Þetta var forgangsmálið, fyrir utan það jú að falla frá hækkun á virðisaukaskatti á ferðaþjónustuna sem hefur blómstrað sem aldrei fyrr í sumar og skerða þannig tekjur ríkisins um einhverja milljarða til viðbótar, auk þess að boða það að auðlegðarskatturinn yrði ekki framlengdur. Gott og vel ef staða ríkissjóðs þyldi slíkar skatta- og gjaldalækkanir, en nei, um leið og einn tekjustofn er skertur er talað um aukinn niðurskurð í rekstri ríkisins. Þar er ekki verið að tala bara um einhverja fitu sem má missa sín því að það er búið að skera verulega niður í rekstri ríkisins á undanförnum árum. Ef við höldum áfram á þeirri braut að skerða hér samneysluna gætum við horft fram á eðlisbreytingu á samfélaginu þar sem samneyslan er jú komin ansi langt niður eftir baráttu síðustu ríkisstjórnar við að ná frumjöfnuði.

Virðulegi forseti. Það er engin leið fyrir hæstv. ráðherra að réttlæta frekari niðurskurð á meðan þeir gefa frá sér tekjur upp á marga milljarða. Þessi niðurskurður finnst mér vera í anda forkólfa Evrópusambandsins sem ég hefði ekki trúað að óreyndu að hv. þingmenn í stjórnarflokkunum vildu fylgja að málum. Heyrst hefur frá lykilmönnum á borð við Olli Rehn að niðurskurður sé eina leiðin til að ná frumjöfnuði og andmælir hann þeirri blönduðu leið sem Frakkar hafa farið, þ.e. blandaðri leið skattahækkana og niðurskurðar. Ég hefði seint trúað því að hv. þingmenn Vigdís Hauksdóttir og Ásmundur Einar Daðason yrðu Olli Rehn Íslands en það lítur allt út fyrir það miðað við það sem heyrist frá hagræðingarhópnum. (Gripið fram í.)

Þetta snýst ekki aðeins um niðurskurð því að ég heyri hæstv. heilbrigðisráðherra tala um fjölbreyttari rekstrarform í heilbrigðiskerfinu og segja: Ja, ég er nú ekki að tala um einkavæðingu heldur fjölbreyttara rekstrarform. Erum við þá að tala um að færa stærri hluta sameignarinnar undir lögmál markaðarins hvort sem það eru heilbrigðisstofnanir, skólar eða veitukerfi með þjónustusamningum við einkaaðila sem eiga svo að græða en taka í raun takmarkaða ábyrgð? Þetta er nefnilega boðað, útvistun og minna eftirlit ofan á allt saman eins og menn muni ekki eftir þeirri umræðu sem hér fór fram í kjölfar útgáfu skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og vinnu þingmannanefndar þar sem allir voru sammála um að mikilvægt væri að stjórnsýslan væri í stakk búin til að standa almennilega að eftirliti.

Við þurfum nefnilega, kæru þingmenn, að spyrja lykilspurninganna. Ég er sammála hæstv. forsætisráðherra, það skiptir máli að umræðan sé málefnaleg, hún sé uppbyggileg, að við séum ekki að hreyta hér ónotum hvert í annað, en það breytir því ekki að við erum ekkert sammála og við þurfum að leyfa okkur að takast málefnalega á um hvaða leiðir eru fram á við.

Virðulegur forseti. Ég tel að aukinn niðurskurður á samneyslu geti haft óafturkræf áhrif á samfélag okkar. Ég tel að aukinn niðurskurður í heilbrigðiskerfi geti hreinlega birst með áhrifum á heilbrigði landsmanna. Það er ekki bara eitthvað sem ég er að finna upp hér og nú. Það sjáum við á þeim rannsóknum sem hafa verið gerðar á samfélögum sem hafa gengið í gegnum kreppu og tekið of stóra bita í niðurskurð á velferðarkerfinu, þar sjást beinar afleiðingar á heilsufari landsmanna. Þannig erum við að búa til aukinn kostnað seinna meir. Ég tel líka að aukinn niðurskurður í menntun og rannsóknum sé kolrangur á þessum tímapunkti. Þegar við lítum til rannsókna skilar fjárfesting í menntun og rannsóknum sér beint í aukinni hagsæld fyrir samfélög. Ég tel líka að þær leiðir sem hafa verið nefndar, að skera niður með því að breyta rekstrarformum, séu varhugaverðar vegna þess meðal annars að ég tel það ekki endilega rétt, hreinlega siðferðilega rétt að einkaaðilar geti hagnast á þeim grunnstoðum sem samfélagið í heild hefur byggt upp því að sá hagnaður á að vera samfélagsins alls.

Að lokum vil ég nefna þær blikur sem eru á lofti í atvinnuuppbyggingu. Við heyrum að fjárfestingaráætlun síðustu ríkisstjórnar sé sérstaklega til skoðunar í niðurskurðaráformum. Hæstv. fjármálaráðherra nefndi það í fréttum að hún hefði ekkert verið almennilega fjármögnuð. Hæstv. fjármálaráðherra stóð að því að skerða tekjur ríkisins sem áttu beinlínis að fara í fjárfestingaráætlunina, 10 milljarðar á þessu ári og því næsta. Þessar tekjur voru eyrnamerktar í fjárfestingaráætlun. Og svo kemur hæstv. fjármálaráðherra — það er ekki hægt að borða kökuna kvöldið áður og koma að morgni dags og segja: Hvar er kakan? þó að það sé stundum gert á heimilum þessa lands.

Horfum líka til þess að sú hugmynd sem einna helst hefur verið á lofti til atvinnuuppbyggingar er ekki fjölbreytt atvinnuuppbygging í anda þess sem lagt var fram í fjárfestingaráætlun, þ.e. fleiri álver, á sama tíma og blikur eru á lofti um heim allan í þeim geira. Ég trúi því ekki fyrr en ég tek á að núverandi ríkisstjórn ætli að fara þá leið. Ég trúi ekki öðru en að ríkisstjórnin ætli sér að byggja hagvöxt á hugviti, fara leið fjölbreyttrar atvinnusköpunar. Ég trúi því ekki fyrr en ég tek á að ætlunin sé að skerða samneysluna eins og við heyrum fréttir af án þess að fá þær staðfestar. En vonandi munum við fá einhver svör á þessu þingi í september.