142. löggjafarþing — 25. fundur,  10. sept. 2013.

störf ríkisstjórnarinnar, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[14:51]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Eins og við öll vitum þurfum við Íslendingar að búa okkur undir hlutfallslega fjölgun aldraðra á komandi árum og áratugum. Sá undirbúningur þarf í senn að taka til fjölgunar háaldraðra og þarfa þess hóps fyrir þjónustu á ýmsum sviðum, en einnig þarf að gæta þess að aldraðir séu virkir þátttakendur í samfélaginu.

Afar mikilvægt er að aldraðir njóti jafnræðis og sanngirni og að virkni þeirra sé tryggð. Liður í því er að tryggja búsetu fólks í heimabyggð og að þar sé þjónusta sem mætir þörfum þessa hóps svo ekki komi til þess að fólk þurfi að flytjast úr heimabyggð sinni þegar aldur færist yfir.

Á nokkrum stöðum úti um land hafa sveitarfélög yfirtekið rekstur dvalarheimila aldraðra. Sú sem hér stendur hefur tekið þátt sem sveitarstjórnarmanneskja á Vopnafirði í því verkefni að yfirtaka rekstur dvalarheimilis aldraðra í sveitarfélaginu.

Virðulegi forseti. Ég vil nota tækifærið hér og þakka þeim sem greiddu því götu.

Samningur hefur verið gerður til tveggja ára þar sem sveitarfélagið tekur að sér að samþætta þjónustu við aldraða með heimahjúkrun, heimilishjálp og aðkomu félagsþjónustu. Verið er að móta heildstætt þjónustumódel sem mætir þörfum íbúanna og samfélagsins. Með þessu er verið að færa þjónustuna í nærsamfélagið og auka íbúalýðræði með beinni þátttöku heimamanna í skipulagningu þjónustunnar. Þetta tel ég jákvæða þróun þar sem heimamenn þekkja sitt umhverfi, þarfir þess og væntingar og eru tilbúnir að leggja verkefninu lið.

Með því að halda þjónustunni heima er ekki einungis verið að tryggja lífsgæði og öryggi aldraðra heldur er einnig verið að styrkja byggðina með fjölbreyttari störfum og hærra þjónustustigi. Fólk sem hefur menntað sig til umönnunar- og hjúkrunarstarfa hefur áframhaldandi möguleika á að starfa í heimabyggð, búa heima á sínu eigin heimili. Við erum því ekki eingöngu að tala um heilbrigðismál heldur einnig atvinnu- og byggðamál sem auka lífsgæði íbúanna og tryggja áframhaldandi búsetu. Þetta er spennandi verkefni fyrir sveitarstjórnina þar sem markmiðið er að veita þjónustu sem mætir þörfum samfélagsins á sem skilvirkastan hátt, nýta fjármuni betur og styrkja byggðarlagið.

Verkefni sveitarfélaga verða sífellt viðameiri og fyrirhuguð yfirfærsla þessa málaflokks mun enn auka álag á þau. Því er afar mikilvægt að vel takist til svo áframhald verði og lærdóm megi draga af þessu verkefni og öðrum viðlíka sem nýta má annars staðar þegar að yfirfærslu kemur.

Í sumar voru fyrstu skrefin tekin til að afnema þær skerðingar sem farið var í árið 2009. Við munum svo halda áfram þar til skerðingarnar hafa verið afnumdar. Ég var sérstaklega ánægð með að frítekjumark ellilífeyrisþega vegna atvinnutekna var hækkað aftur og gert sambærilegt frítekjumarki öryrkja auk þess sem við framlengdum frítekjumark atvinnutekna öryrkja um eitt ár.

Með hækkun á frítekjumarki atvinnutekna ellilífeyrisþega er stuðlað að aukinni atvinnuþátttöku eldri borgara en mikilvægt er að fólki sé gert kleift að stunda atvinnu á meðan það hefur heilsu til enda eykur það almennt lífsgæði fólks þótt margt annað komi þar einnig til.

Verðmætin sem felast í þekkingu og reynslu eldri kynslóðanna eru okkur afar dýrmæt og mikilvægt að stuðla að sveigjanlegum starfslokum og lífeyristökualdri þannig að þekking og starfsreynsla ráði í meira mæli starfslokum en lífaldur.

Jafnframt tel ég mjög mikilvægt að þegar hefur verið hafist handa við undirbúning þess að breyta lögum um almannatryggingar. Mikilvægt er að sú vinna gangi hratt og örugglega fyrir sig.

Þegar við horfum til landsins alls hljótum við að vera sammála um mikilvægi þess að íbúar þessa lands hafi val um hvar þeir setja niður heimili sitt til frambúðar og mikilvægi þess að fá að eldast í heimabyggð sinni með fjölskyldunni kjósi maður svo.

Virðulegi forseti. Ef okkur tekst vel upp í þessum þætti þjónustunnar við íbúa verður það mikilvægur þáttur í eflingu byggðar og byggðaþróunar um land allt. Við þurfum að vanda vel til verka og óska ég okkur góðs gengis í þessu verkefni sem og öðrum sem fyrir liggja.