142. löggjafarþing — 25. fundur,  10. sept. 2013.

störf ríkisstjórnarinnar, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[15:01]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Hæstv. forsætisráðherra flutti okkur hér ræðu undir yfirskriftinni Störf ríkisstjórnarinnar. Í sjálfu sér tókst hæstv. forsætisráðherra ágætlega að fylla út í 15 mínútur eða svo undir þeirri yfirskrift en í reynd var þetta að minnstu leyti um störf ríkisstjórnar í eiginlegri merkingu, þ.e. hvaða verkum ríkisstjórnin hefði lokið, heldur var þetta mikil upptalning á nefndaskipana- og verkefnalistum sem hæstv. ríkisstjórn hefur greinilega sett sér fyrir. Ég tek undir að margt er þar ágætlega vel hugsað, málefni sem eru mikilvæg.

Ég verð að gera þá játningu að mér finnst hæstv. ríkisstjórn hafa farið rólega af stað, svo að ég orði það mjög pent. Ég hefði haldið, miðað við málflutning ríkisstjórnarforkólfanna á síðasta kjörtímabili, sem eru nú lítið hér til staðar, t.d. hvorugur þeirra drengjanna, hæstv. forsætisráðherra Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra Bjarni Benediktsson, sem væri þó sérstaklega áhugavert að hafa hér, formenn stjórnarflokkanna, að þeir hefðu brett upp ermar og staðið við eitthvað af stóru orðunum. Þá á ég ekki við kosningaloforðin heldur er mér mjög minnisstæður málflutningur þeirra á síðasta kjörtímabili að í raun væri allur vandi landsins ónýtri ríkisstjórn að kenna eins og þá væri komið, á árunum 2010, 2011 og 2012, inn á árið 2013 og það þyrfti ekkert annað en þá til, hina vösku menn með þeirra hugmyndafræði. Þeir mundu smella fingrum og þar með færi allt á fulla ferð. Af hverju sjáum við þess þá ekki stað að þeir hefjist handa af krafti?

Ég tek það fram, virðulegi forseti, að ég er í þeim hópi sem óskar hæstv. ríkisstjórn af heilum hug góðs gengis við að halda áfram að vinna Ísland út úr erfiðleikunum því að það er verkefnið. Það verður ekki gert með því að smella fingrum. Það eru engin slík ofurmenni til í stjórnmálum sem geta látið djúprættan og uppsafnaðan mikinn vanda hverfa á einni nóttu. Þetta er þrotlaus vinna, við þurfum hægt og bítandi að vinna okkur áfram út úr þeim erfiðleikum sem við rötuðum í á árinu 2008 með löngum aðdraganda. Þetta snýst um úthald og að vera á réttri leið, að sjá að hlutirnir séu þó að þokast í rétta átt. Og við eigum að gleðjast yfir því, þó að við getum alltaf óskað okkur þess að klárinn væri á meiri ferð.

Dvöl hæstv. fjármálaráðherra hefur greinilega ekki verið alveg án þess að hafa áhrif. Það var hógværari og raunsærri maður sem talaði hér áðan en við heyrðum stundum í á síðasta kjörtímabili, vil ég meina. Hann sagði að lítið hefði verið fjallað hér um stöðu ríkissjóðs. Hann skal ekki verða svikinn í þeim sem hér stendur að taka þátt í umræðunni um það.

Það er hárrétt, staða ríkissjóðs Íslands er erfið. Á hann hlóðust gríðarlegar skuldir í hruninu og undan því varð ekki vikist. Það varð að takast á við útgjöldin sem bankahrunið og bullandi hallarekstur ríkissjóðs, endurfjármögnun bankakerfisins og allt þetta kallaði á. Hún er erfið og hún verður það um áralangt bil. Staðreyndin er sú að staða Íslands mun markast af hruninu langt inn í framtíðina, því miður. Þeim mun mikilvægara er að við förum ekki út af sporinu. Þeim mun mikilvægara er að hæstv. ríkisstjórn komist sem fyrst niður á jörðina, átti sig á því að nú á ekki við digurbarkahátturinn sem uppi var hjá þessum háttvirtu mönnum á síðasta kjörtímabili.

Ég sakna þess enn að það komi raunsær tónn, sérstaklega í málflutning hæstv. forsætisráðherra. Því miður virðast ferðalög hans til útlanda og fundir með frægum mönnum ekki hafa dugað honum til þess að komast almennilega niður á jörðina. Ég held að hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra sé nær því að átta sig á hvað fram undan er og hvað bíður hæstv. ríkisstjórnar.

Þess vegna er það mér mikið áhyggjuefni að hæstv. ríkisstjórn hefur afsalað ríkissjóði tekjum upp á um 20 milljarða kr. á ársgrundvelli strax á næsta fjárlagaári. Svo tala menn um niðurskurð og sækja í það verkefni þingmenn. Hagræðingarhópur var hann kallaður hér áðan, einhverjir aðrir hafa gefið honum önnur og kaldranalegri nöfn, alveg í áttina austur að kamikaze-kenningum. Hann á að koma með tillögur í þessum efnum. Og ég er í hópi þeirra sem mæla varnaðarorð gagnvart því að menn haldi að það sé hægt að sækja mikla viðbótarfjármuni í frekari niðurskurð og skerðingu samneyslunnar á Íslandi af tveimur ástæðum. Vegna þess sem þegar hefur verið að gert og er ekkert lítið og á því berum við mörg hér ábyrgð, að draga verulega úr fjárveitingum til margþættrar starfsemi og velferðarkerfið jafnvel ekki undanskilið þó að við reyndum að hlífa því eins og við gátum. En ég er líka í hópi þeirra sem vara við þessu af efnahagslegum ástæðum.

Það að sleppa út 20 milljörðum í tekjum frá ríkinu í beinum sköttum og mæta því með sambærilegum niðurskurði hefur verulega neikvæð efnahagsleg áhrif, eftirspurnaráhrif í hagkerfinu. Það er þannig. Við megum ekki við því að kæla það hagkerfi frekar niður. Hæstv. fjármálaráðherra kvartaði einmitt undan því að hér væri lítil eftirspurn. Alveg rétt, hún þarf að örvast og fjárfestingar og allt það. En það er margsannað mál að það er betra að afla tekna í ríkari mæli en minni með beinum sköttum og endurráðstafa því strax í umferð út í gegnum samneysluna en að gera það ekki og skera meira niður á móti. Það hefur miklu meira kælandi áhrif á hagkerfið að gera það.

Þarna óttast ég að hæstv. ríkisstjórn sé á rangri leið og hún á að hugsa sig vel um áður en hún víkur frá þeirri blönduðu leið sem fyrri ríkisstjórn fylgdi í þessum efnum og skilaði, hverju? Skilaði því að Ísland náði athyglisverðum árangri að mati þeirra sem greina stöðu landsins utan frá og miklu meiri en flest önnur lönd sem glímdu við samdrátt á sama tíma vegna þess að okkur auðnaðist að gera hvort tveggja: að ná tökum á hallarekstri ríkissjóðs og halda hagkerfinu þó í því horfi að hér er hagvöxtur þriðja árið í röð. Vissulega ekkert kraftmikill en hann er þó með því mesta sem mælist innan OECD og fegnir mundu margir skipta við okkur. Við erum að sjá fimmta og sjötta og sjöunda samdráttarárið í röð í sumum Evrópulöndum sem rötuðu í vandræði um svipað leyti og við.

Herra forseti. Það er enginn tími til að segja neitt af viti í svona stuttri ræðu. Nú sakna ég gömlu þingskapanna [Hlátur í þingsal.] þannig að maður gæti rætt hér við hæstv. ríkisstjórn — og sérstaklega ef hún væri nú í salnum. Ég þakka að vísu þeim hæstv. ráðherrum sem hér eru en málshefjandi og formaður hins stjórnarflokksins mega nú lítt við bindast hér í salnum.

Að lokum bíð ég þess að hæstv. ríkisstjórn komist niður á jörðina. Þjóðin er komin niður á jörðina. Tiltrú hennar á ríkisstjórninni hefur dalað merkilega hratt þessa sumarmánuði, eins ágætir og þeir hafa nú verið, a.m.k. fyrir norðan, og væntingarnar hríðfallið með. Hæstv. ríkisstjórn verður að horfast í augu við þetta eins og mjög margt annað, koma sér niður á jörðina og koma sér til verka. Það vinnst ekkert með tómu pönnukökuáti.