142. löggjafarþing — 25. fundur,  10. sept. 2013.

störf ríkisstjórnarinnar, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[15:21]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Það er verulega ánægjulegt að heyra atvinnuuppbyggingarstefnu Sjálfstæðisflokksins. Ég vona að þeim gangi mjög vel í þeim efnum og í raun og veru treysti ég Sjálfstæðisflokknum alveg til þess að efla atvinnulífið. Mikilvægt er að sá efnahagsvöxtur sem fylgir sé sjálfbær og byggður á traustum grunni og þá langar mig að grípa niður í ályktun um efnahags- og viðskiptamál á síðasta landsfundi Sjálfstæðisflokksins þar sem fjallað er um að verja eignarréttinn og að eignarrétturinn sé grundvöllur verðmætasköpunar.

Mig langar líka að grípa niður annars staðar í sama plaggi, með leyfi forseta, þar sem segir að Sjálfstæðisflokkurinn leggi áherslu á að virðing fyrir eignarrétti sé nauðsynleg undirstaða blómlegs efnahags.

Þetta kemur ekkert á óvart því að í skipulagsreglum Sjálfstæðisflokksins kemur alveg skýrt fram hver grunngildi Sjálfstæðisflokksins eru. Þar segir að grunngildi Sjálfstæðisflokksins séu frelsi og trú á einstaklinginn og að eignarréttur, réttur til frelsis og jafnréttis séu frumréttindi sérhvers einstaklings. Þar er ég alveg sammála.

Takið eftir því að eignarrétturinn er settur fremstur þarna, eignarrétturinn sem er frumréttur sérhvers einstaklings, eignarrétturinn sem er nauðsynleg undirstaða blómlegs efnahags. Eignarrétturinn þarf öflugan kyndilbera.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur tekið að sér það mikilvæga hlutverk að vera kyndilberi eignarréttarins. Flokkurinn nefnir eignarréttinn fyrstan af frumréttindum einstaklinganna en þá spyr maður sig: Hvað með eignarrétt lántakenda? Landsmenn gerðu lánasamninga við fjármálafyrirtæki og fengu fé til að kaupa sér eign. Þeir fengu fé, þeir keyptu sér eign, þeir eiga eignina, þeir eiga heimili síns. En það er ágreiningur milli samningsaðila um þá lánasamninga og það er framkvæmdar- og dómsvalds að framfylgja samningalögum og skera úr um vafaatriði. Samningalög segja skýrt að neytandinn skuli njóta vafans, að lántakandinn skuli njóta vafans. Landslög segja því að framkvæmdarvaldinu beri að vernda eignarrétt lántakenda þar til dómstólar taka af allan vafa um hvernig skuli fullnusta lánasamninga.

Samt gera sýslumenn frú Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra eignir upptækar og selja til þriðja aðila sem þýðir að réttmætir eigendur þeirra geta ekki fengið þær aftur og jú, þeir eru sýslumenn hennar af því að þeir eru undir hennar forræði. Samt er fólk gert gjaldþrota sem þýðir verulega skerðingu á eignarrétti þess. Þegar fólk er gert gjaldþrota þýðir það að eignarréttur þess og réttur til eigna og athafna er verulega skertur. Það er óafturkræf aðgerð. Það er ekki hægt að færa klukkuna aftur og segja að fólk sé ekki lengur gjaldþrota eða að þetta hafi ekki gerst. Það þarf að fara fram í tímann þangað til menn geta fengið eignarrétt sinn aftur, rétt sinn sem fullgildir borgarar með eignarréttar- og atvinnuréttindi.

Eitt af meginverkum okkar pírata það sem eftir er af sumarþinginu og á komandi haustþingi er að minna Sjálfstæðisflokkinn á að standa undir nafni. Það eru ekki sjálfstæðir einstaklingar sem eru fastir í réttaróvissu með dýrustu eign sína, heimili sitt. Það er ekki sjálfstæð þjóð sem nýtur ekki öruggs eignarréttar og það er ekki sjálfstæðisflokkur sem stendur á hliðarlínunni meðan fjármálafyrirtækin senda sýslumenn frú Hönnu Birnu Kristjánsdóttur til að slökkva elda eignarréttarins hjá fjölskyldum landsins. Ef Sjálfstæðisflokkurinn ákveður að leggja frá sér kyndil eignarréttarins þegar kemur að lántakendum munu píratar taka hann upp og halda honum á lofti.

Við píratar erum ekki stór flokkur en sem þingmenn höfum við sterka rödd og munum halda áfram að minna þingmenn Sjálfstæðisflokksins á grunngildi sín, á eina af meginástæðum fyrir tilvist flokksins: Að vera kyndilberi eignarréttarins, líka eignarréttar lántakenda. Til að verja eignarrétt lántakenda þarf fyrsta verk Sjálfstæðisflokksins að vera að stöðva eignaupptöku hjá lántakendum þar til dómstólar taka af allan vafa um lánasamningana þeirra. Ég mun spyrja frú Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra nánar um málið í sérstökum umræðum á næstu dögum og ég vænti þess að það verði mjög fróðlegt og skemmtilegt.