142. löggjafarþing — 25. fundur,  10. sept. 2013.

störf ríkisstjórnarinnar, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[16:07]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Jæja, þá eru þingfundir aftur byrjaðir og ég verð að segja að þingbúningurinn er ekki jafn óþægilegur og mig minnti. Hann er talsvert óþægilegri, ekki bara vegna þess að þessi merkilega karlatíska á hinu háa Alþingi neyðir mann til að vera í mjög óþægilegum fötum, sem í þokkabót krefjast sérmeðferðar við hverja hreinsun, heldur er líka á köflum hálfóþægilegt að vera þingmaður á meðal almennings.

Þetta veit ég auðvitað ekki bara persónulega, heldur sé ég þetta á samfélagsmiðlunum, ég hef heyrt þetta á fólki bæði fyrir og eftir kosningar. Það heyrir nefnilega til algjörra undantekninga að vel sé talað um hið háa Alþingi. En við erum heppin, virðulegi forseti, það er nefnilega til skýrsla um þetta mál og það var enginn annar en hinn háæruverðugi Háskóli Íslands sem gaf hana út, nánar tiltekið Félagsvísindastofnun hans. Í þessari skýrslu kemur fram að það sem fólk vill að batni hjá okkur er að starfið verði gagnsærra, meira verði um afsagnir þingmanna í kjölfar mistaka, að málþóf verði minna, að hv. þingmenn sýni hver öðrum meiri virðingu og síðast en ekki síst að starfið verði markvissara.

Ég verð að viðurkenna að ég er ekki alveg með á hreinu hvað er átt við með því að starfið verði markvissara en sjálfsagt er til greinargóð útskýring á því.

Hvernig getur það verið, virðulegi forseti, að almenningur vilji að við sýnum hvert öðru meiri virðingu? Í hvert sinn sem við minnumst á hvert annað er tíundað hvað þessi sé háttvirtur og hinn sé hæstvirtur. Hér kemur fólk snyrtilega klætt og það heyrir til algjörra undantekninga að fúkyrði heyrist úr þessari merkilegu pontu. Það er eins og þjóðinni sé hreinlega sama um allar þessar hefðir, þessi fallegu orð og þessi fínu jakkaföt, virðulegi forseti. Maður spyr því: Hvað gæti almenningur hugsanlega átt við með „meiri virðingu“? 89% aðspurðra nefna þetta, virðulegi forseti, næstum því allir, næstum því allt fólk vill að við sýnum hvert öðru meiri virðingu.

Er þjóðin bara svona vitlaus? Eða getur verið að allt þetta umstang okkar við útlit og hefðir sé í augum landsmanna yfirborðskennt þvaður sem sé ekki einu sinni ætlað að láta eitthvað gott af sér leiða heldur til að sannfæra okkur, hv. þingmenn sjálfa, um að við eigum meinta virðingu skilið?

Nú spyr ég til að svara, virðulegi forseti, ég held nefnilega að ég sé búinn að finna út úr þessu. Ég held að almenningur vilji að við vinnum betur saman þrátt fyrir ólík sjónarmið, að afraksturinn sé ekki eingöngu afleiðing sáttar eða átaka heldur stundum einhvers staðar á milli, að eitthvað geti gerst á Alþingi án þessara stanslausu klækjabragða, þessarar þingskapaleikfimi svokölluðu, þessarar hörðu orðræðu. Þingmenn tínast upp í pontu og eru hver öðrum hneykslaðri á hátterni annarra, þar á meðal sá sem hér stendur, en hvað annað á hv. þingmaður að gera?

Málum er nefnilega háttað þannig, hvort sem fólki líkar það betur eða verr, að öll völdin eru í höndum naums meiri hluta. Naumur meiri hluti kjósenda greiddi atkvæði með stjórnarflokkunum tveimur en þeir hafa samt sem áður 100% valdsins. Hæstv. forsætisráðherra nefndi fyrir kosningar að hann hefði áhyggjur af kúgun meiri hlutans yfir minni hlutanum þegar kæmi að þjóðaratkvæðagreiðslum. Hvergi er sú áhyggja réttmætari en hér, á hinu háa Alþingi.

Stóra kaldhæðnin í þessari ræðu minni er að hún gerir í sjálfu sér lítið gagn vegna þess að valdakjarnar vilja halda sínum völdum. Til að dreifa valdinu þarf sá sem þau hefur að afsala sér þeim með tilheyrandi óvissu um framtíðina eða, það sem verra er, vissu um framtíðina. Hér verður því áfram blessað þingræðið eins og við öll vitum hvernig það verður. Stjórnarandstaðan mun senda inn frumvörp og veit að þeim verður hafnað á þeirri einu raunverulegu forsendu að þau koma frá röngum flokkum. Nýliðar stjórnarmeirihlutans fá síðan eitt mál í gegn sem hluta af einhvers konar busunarferli, allt samkvæmt hefðum, allt samkvæmt venju — allt samkvæmt þingsköpum en ekki af virðingu, hæstv. virðulegi forseti.