142. löggjafarþing — 25. fundur,  10. sept. 2013.

störf ríkisstjórnarinnar, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[16:12]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Alþingi er komið saman á ný til sex daga framhaldsfunda þar sem frá var horfið í sumar. Fram undan er annasamt þing þar sem fjölmörg mál verða tekin fyrir sem öllum er ætlað að leiða til breytinga til að bæta stöðu þjóðarbúsins og vera til hagsbóta fyrir heimilin í landinu. Mörg stór verkefni brenna mér á hjarta sem félags- og húsnæðismálaráðherra. Húsnæðismál og skuldamál heimilanna ber þar hæst því að þar er þörf fyrir veigamiklar breytingar og úrbætur.

Í lok júní samþykkti Alþingi þingsályktun um aðgerðir vegna skuldavanda heimilanna og eðli málsins samkvæmt eru þar ýmis verkefni á ábyrgð velferðarráðuneytisins. Á vegum þess hefur í sumar verið unnið að verkefni sem snýr að lausnum fyrir eigendur yfirskuldsettra íbúða í samvinnu við innanríkisráðuneytið og markmiðið er að gera eigendum yfirskuldsettra íbúða kleift að losna án gjaldþrots undan eftirstöðvum sem veðið stendur ekki undir. Gangi þetta eftir er um að ræða tímabundna aðgerð til að leysa vanda tengdan afleiðingum efnahagshrunsins. Niðurstaða ætti að liggja fyrir undir lok þessa mánaðar.

Annað verkefni snýr að aðstoð við eignalausa einstaklinga vegna gjaldþrots sem gerir þeim kleift að greiða nauðsynlegan kostnað sem fellur til þegar einstaklingur óskar eftir gjaldþrotaskiptum á búi sínu. Niðurstöðu er einnig að vænta í þessum mánuði.

Stærsta verkefnið til að rétta stöðu heimilanna felst auðvitað í þeim loforðum sem stjórnvöld hafa gefið um að leiðrétta stökkbreytt verðtryggð lán heimilanna. Það verkefni er algjört forgangsmál ríkisstjórnarinnar og mikið réttlætismál. Við höfum alltaf litið svo á að örlagavaldarnir sem með óábyrgu framferði sínu ollu því að verðtryggðar skuldir stökkbreyttust eigi að standa skil á sínu og greiða fyrir sjálfsagða leiðréttingu sem heimilin eiga rétt á. Það er mikill misskilningur að setja beri kröfuhafana í forgang og tryggja þeim hámarksarð af eignum sínum á kostnað ríkissjóðs og heimilanna. Með uppgjöri þrotabúanna mun skapast svigrúm sem verður nýtt til hagsbóta fyrir íslensk heimili. Það er hið eina rétta.

Fátt er nefnilega fólki mikilvægara en að eiga öruggt þak yfir höfuðið, að eiga tryggan samastað fyrir sig og sína þar sem fjölskyldan á sinn griðastað og getur notið stjórnarskrárvarins réttar síns til friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu. Þetta er einn af hornsteinunum í hugmyndum okkar og verkefnum stjórnvalda fram undan. Verkefnastjórn á mínum vegum mun í byrjun næsta árs í samræmi við ályktun Alþingis skila mér tillögum um framtíðarstefnuna í húsnæðismálum sem meðal annars eiga að taka til hagkvæmasta fyrirkomulagsins við fjármögnun almennra húsnæðislána, leiðir til að tryggja virkan leigumarkað og tillögu um hvernig best verði staðið að skilvirkum félagslegum úrræðum fyrir þá sem þess þurfa með.

Ég legg ríka áherslu á víðtækt samráð í þessari vinnu og ég fagna þeirri þingsályktunartillögu sem hér er komin fram frá hv. þingmönnum Samfylkingarinnar og snýr að ástandinu á leigumarkaðnum. Það er líka einkar ánægjulegt að geta sagt það hér að nánast allar þær hugmyndir sem þar birtast eru þegar til skoðunar eða í vinnslu hjá ríkisstjórninni. Það er nefnilega þannig að húsnæðismálin eru mál sem varða okkur öll. Aftur á móti eru aðstæður fólks misjafnar og því hef ég lagt mikla áherslu á að valkostir í húsnæðismálunum verða að vera fjölbreyttir og mæta ólíkum þörfum og fjárhagslegum burðum fólks.

Virðulegi forseti. Húsnæðismál, skuldamál og kjaramál eru okkur landsmönnum ofarlega í huga nú um stundir, sem er afar skiljanlegt því að á öllum þeim sviðum hefur þrengt að hjá okkur flestum á undanförnum árum. Að sjálfsögðu munum við ekki á augabragði endurheimta þær skerðingar sem urðu á lífskjörum í kjölfar efnahagshrunsins. Aftur á móti er full ástæða til bjartsýni. Við stefnum ótrauð fram á við. Margt horfir þegar til betri vegar og þær aðgerðir sem stjórnvöld vinna að núna og verður hrint í framkvæmd á næstu mánuðum eiga eftir að skila heimilum landsins betri kjörum og auknum lífsgæðum.

Í dag hafa samtök öryrkja og ellilífeyrisþega haldið hvatningarfund framan við Alþingishúsið sem er einfaldlega ætlaður til þess að halda okkur sem hér sitjum við efnið um að bæta kjör þeirra hópa líkt og stefnt er að. Ég tek þessari hvatningu fegins hendi og mun leggja kapp á að gera mikilvægar breytingar á almannatryggingalöggjöfinni sem skilar lífeyrisþegum þeim auknu lífsgæðum sem við höfum talað um líkt og kemur fram í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Fyrsta skrefið til afnáms fyrri skerðinga var tekið í sumar og við munum halda áfram þar til skerðingarnar hafa verið afnumdar.

Ég legg líka áherslu á að ljúka við heildarendurskoðun laga um almannatryggingar. Þegar hefur farið fram mikil vinna til undirbúnings þeirri endurskoðun og að sjálfsögðu verður henni ekki kastað á glæ heldur byggt á því sem vel hefur verið gert. Starfsgetumat verður tekið upp í stað örorkumats og starfsendurhæfingarúrræði stórefld til að fyrirbyggja ótímabæra skerðingu á starfsorku. Eins verður áhersla lögð á aukna möguleika fólks til sveigjanlegra starfsloka ásamt einföldun sem var megináhersla þeirrar nefndar sem vann í tíð fyrri ríkisstjórnar.

Hæstv. forseti. Uppbygging er til framtíðar fyrir fólk og fjölskyldur með áherslu á vinnu, velferð og öruggt heimili fyrir alla. Um þetta snúast þau verkefni sem ríkisstjórnin leggur áherslu á, þau verkefni sem ég legg áherslu á í störfum mínum fram undan, og við munum í sameiningu vinna að framgangi allra þeirra stóru mála sem kveðið er á um í stjórnarsáttmála og munum skila þjóðinni áfram til bjartari og betri tíðar.