142. löggjafarþing — 26. fundur,  11. sept. 2013.

þverpólitískt samstarf um afnám gjaldeyrishafta.

[15:05]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Það getum við verið sammála um, ég og hv. þingmaður, að þverpólitíska samráðið sem efnt var til á síðasta kjörtímabili skilaði góðum árangri. Ég sé fyrir mér að það sé einn af lykilþáttum þess að áfram verði unnið í góðri sátt að afnámi haftanna. Þverpólitíska samráðið skipti gríðarlega miklu máli á síðasta kjörtímabili, m.a. til þess að deila upplýsingum um umfang vandans, en lengi framan af stóð mikill ágreiningur í þinginu um þörfina fyrir höftin, hvers vegna tímafrestir sem menn höfðu sett sér stæðust ekki, hvers vegna verið væri að herða höftin o.s.frv. Í mínum huga stóð sá ágreiningur að verulegu leyti hér í þinginu vegna þess að menn deildu ekki sömu sýn á vandamálið og það byggðist á mjög ólíkum aðgangi að upplýsingum. Til að tryggja betri samstöðu en framan af var um þessi mál tel ég að pólitíska samráðið geti gagnast okkur mjög vel. Það getur hins vegar ekki verið nein örugg trygging fyrir því að menn séu sammála um allar leiðir sem síðan verða valdar til þess að takast á við vandann.

Eflaust er það svo og við finnum fyrir því í þjóðfélagsumræðunni að uppi eru skiptar skoðanir um það með hvaða hætti eigi að fást við þennan vanda, enda er hann margþættur. Ég vil undirstrika það að ég tel að þverpólitískt samráð verði einn af lykilþáttum þess að við höldum áfram þessari vinnu. Ég hef skilning á því ef mönnum þykir að liðið hafi of langur tími milli funda en við vinnum það upp fljótt þegar við hefjumst handa. Ég get sagt frá því að eitt af því sem við höfum verið að gera, ég og forsætisráðherra, er að glöggva okkur á stöðunni á grundvelli þeirra upplýsinga sem fyrir liggja í ráðuneytunum. (Forseti hringir.) Það hefur reynst okkur mjög mikilvægt, og nauðsynlegur aðdragandi að því sem fram undan er.