142. löggjafarþing — 26. fundur,  11. sept. 2013.

endurskoðun laga um stjórn fiskveiða og veiðigjöld.

[15:10]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ein umdeildustu mál á síðasta kjörtímabili voru án efa breytingar á stjórn fiskveiða og heildarendurskoðun á löggjöfinni og lög um veiðigjöld. Það fór fram mikil vinna við endurskoðun á lögum um stjórn fiskveiða og álitaefni skilgreint að undangengnu samráði við fjölda hagsmunaaðila og sérfræðinga og aðkomu fulltrúa stjórnmálaflokkanna og ýmissa ólíkra sjónarmiða sem komu inn í þá vinnu. Afurð þessa vinnuhóps var skýrsla sem liggur fyrir. Í máli hæstv. ráðherra á sumarþinginu og einnig í máli hæstv. forsætisráðherra í umræðum hér í gær um störf ríkisstjórnarinnar kom fram að hafin væri vinna við endurskoðun á lögum um veiðigjöld og nýtt fiskveiðistjórnarkerfi. Það hefur komið fram að mikill hagnaður er í sjávarútvegi sem sýnir að greinin getur með góðu móti greitt veiðigjald, en enn fremur hefur þessi mikla samþjöppun haft áhrif á margar byggðir og veikt þær sem sýnir fram á að endurskoða þurfi núverandi kerfi.

Ég vil því spyrja hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra: Hvað líður endurskoðun á lögum um stjórn fiskveiða og lögum um veiðigjöld? Hverjir koma að þeirri vinnu og hyggst hæstv. ráðherra kalla þverpólitískan hóp til starfa líkt og gert var hjá síðustu ríkisstjórn? Telur hæstv. ráðherra að greinin og byggðirnar þoli meinta óvissu um hvaða breytingar komi til með að verða í framhaldinu miðað við boðaða endurskoðun á veiðigjöldum og lögum um stjórn fiskveiða?