142. löggjafarþing — 26. fundur,  11. sept. 2013.

endurskoðun laga um stjórn fiskveiða og veiðigjöld.

[15:15]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Mér fannst ekki koma skýrt fram í máli hans hvort hann hygðist kalla breiðan, þverpólitískan hóp til þeirrar vinnu sem er fram undan. Ég brýni hæstv. ráðherra til þess af því að þetta stóra mál hefur verið deilumál og verður deilumál ef mönnum tekst ekki að ljúka því í nokkurri sátt. Sáttin verður auðvitað aldrei nema fleiri sjónarmið komi að.

Sú niðurstaða sem lá fyrir í lok þingsins í vor var orðin mikil málamiðlun svo ég brýni hæstv. ráðherra til að kalla fleiri að þessari vinnu til að ná sátt. Þetta verður áfram þrætuepli hjá þjóðinni, álíka þrætuepli og innganga í Evrópusambandið, ef við vöndum okkur ekki í þessu verkefni og köllum til ólík sjónarmið og reynum að ná niðurstöðu. Niðurstaða skýrslunnar var ekki einróma. Menn voru á sömu braut en höfðu alls kyns bókanir í lokin (Forseti hringir.) um endanlega útfærslu og hæstv. ráðherra veit það.