142. löggjafarþing — 26. fundur,  11. sept. 2013.

endurskoðun laga um stjórn fiskveiða og veiðigjöld.

[15:16]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Það er rétt að samráð skiptir mjög miklu máli og það verður að segjast eins og er að á síðustu fjórum árum hafa menn gjarnan upplifað það, sérstaklega hvað varðar endurskoðun á þessum tveimur þáttum, fyrir utan samráðshópinn sem ég hef oft sagt að væri sérstaklega jákvætt fyrirbæri og ánægjuleg niðurstaða, að það hafi ekki verið neitt samráð. Þess vegna hef ég lagt mig í líma á sumarmánuðum og haustdögum, þeim sem komnir eru, að heimsækja sem flest fyrirtæki, eiga samtöl við sem flesta hagsmunaaðila og tengda aðila í greininni og hyggst halda því áfram í þeim hópum sem munu vinna að endurskoðuninni sem og að upplýsa auðvitað atvinnuveganefnd, þar sem allir flokkar sitja, um vinnuna af því að það er mikilvægt að ná sem víðtækastri sátt.

Stærsta gagnrýnin sem hefur orðið á veiðigjöldin, auðlindagjaldið, er að þau renni öll til Reykjavíkur. Það er mikilvægt að horfa til þess hvernig við getum skilið hluta af því eftir, t.d. í sjávarbyggðunum, og ég hef þess vegna átt fundi með þeim samtökum sjávarbyggða sem voru sett á laggirnar í fyrra. Ég vænti mjög mikils af (Forseti hringir.) samráði allra aðila um þetta til að ná víðtækri sátt um greinina og tek undir með þingmanninum í því efni. (LRM: Er það stóra …?)