142. löggjafarþing — 26. fundur,  11. sept. 2013.

ástandið á lyflækningasviði LSH.

[15:17]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Ég kveð mér hér hljóðs vegna þess að ég hef verulegar áhyggjur af ástandi mála á lyflækningasviði Landspítala – háskólasjúkrahúss. Ég efast ekkert um að hæstv. heilbrigðisráðherra hefur áhyggjur af þeirri stöðu líka. Það getur vel verið að við og margir aðrir séu orðnir ónæmir fyrir fregnum af slæmu ástandi og neyðarástandi á Landspítalanum en ég held því fram að núna sé hreinlega komið að ákveðnum mörkum.

Staðan er þannig á lyflækningasviði að þar á að ráða 25 deildarlækna en einungis hefur tekist að ráða sjö. Það þýðir að gera þarf neyðaráætlun á lyflækningasviði sem felur það meðal annars og einkum í sér að sérfræðingar taka á sig auknar byrðar og aukið starf innan spítalans og eru langþreyttir fyrir. Þetta er alþjóðlegt starfsumhverfi sem birtist í því að deildarlæknarnir hafa einfaldlega ákveðið að fara annað. Ef sérfræðingarnir ákveða að fara annað út af miklu álagi þá hrynur þessi starfsemi, þessi þjónusta. Það er gríðarlega alvarlegt. Lyflækningasviðið er eins og við vitum þungamiðjan í starfsemi spítalans.

Eins og ég sagði áðan hlýtur hæstv. heilbrigðisráðherra að hafa af þessu gríðarlega miklar áhyggjur og ég vil fyrir enga muni ræða þetta mál á þeim nótum að fara í einhverjar fingrabendingar hér eða saka einhvern um að vera orsakavaldur að þessu. Hér þurfum við að ræða saman í lausnum, við þurfum að viðurkenna þennan vanda. Læknar hafa bent á lausnir sem ég ætla að fara yfir í síðari hluta andsvarsins en mér þætti vænt um að heyra hvaða augum hæstv. heilbrigðisráðherra lítur þessa stöðu.