142. löggjafarþing — 26. fundur,  11. sept. 2013.

ástandið á lyflækningasviði LSH.

[15:20]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina og einnig fyrir að vekja athygli á þessu mikilvæga máli. Ég deili vissulega áhyggjum hv. þingmanns af þeirri stöðu sem hefur skapast á Landspítalanum, sérstaklega á lyflækningasviðinu. Ég legg áherslu á að þeir stjórnendur Landspítalans sem ég hef rætt við, starfsfólk, stjórnvöld og ráðuneyti hafa líka verulegar áhyggjur af þessari stöðu.

Við erum að leita lausna og þiggjum allar góðar ábendingar þar að lútandi. Ég hef vissulega fengið ábendingar frá læknum og stjórnendum í þá veru. Við erum að vinna að ákveðinni tillögugerð í þeim efnum þessa dagana. Ég ætlast til þess að stjórnendur Landspítalans greini skilmerkilega frá því sem þar er efst á baugi.

Í mínum huga eru ýmsar leiðir til. Þetta ástand stafar af ýmsum ástæðum, m.a. gríðarlegu álagi á deildina sem staðið hefur yfir nú í fjögur, fimm ár. Það eru leiðir til þess að mæta því og þær kalla á fjármuni sem við erum að leita leiða til að sækja. Það er ekki í digra sjóði að sækja. Ég hef kappkostað að rækja mitt starf á grunni þeirra heimilda í lögum sem Alþingi veitir í fjárlögum þannig að ef við eigum að bregðast við með fjárútlátum þarf til þess aukafjárveitingu. Sömuleiðis eru þarna atriði sem starfsfólk lyflækningasviðsins hefur bent á og kalla á breytt samskipti stjórnenda og starfsfólks, skipulagsbreytingar og tiltölulega einfaldar en líka flóknar leiðir til þess að bæta starfsaðstöðu og starfsskipulag þess fólks sem á Landspítalanum vinnur. Það er því allt undir í þeim efnum. Allar góðar ábendingar eru vel þegnar og ég heiti á þingið allt að styðja okkur við það verkefni að standa vörð um þetta flaggskip íslenskrar heilbrigðisþjónustu.