142. löggjafarþing — 26. fundur,  11. sept. 2013.

hjúkrunarrými á Suðurnesjum.

[15:37]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Forseti. Varðandi Heilbrigðisstofnun Suðurnesja er því til að svara að hún hefur, rétt eins og hv. þingmaður nefnir réttilega, átt við töluverðan rekstrarhalla að stríða. Þannig háttar til að til Suðurnesja er úthlutað sennilega 18–25 rýmum — ég man ekki töluna nákvæmlega, 18 væntanlega — fleiri í hjúkrun en rými eru til að sinna. Þetta stafar af því að hluti hjúkrunarrýma hefur verið nýttur til að aðstoða stofnunina við að greiða niður hallareksturinn og er í mínum huga þess eðlis að það beri að aflétta því ástandi.

Ég bind vonir við það að heilbrigðisstofnunin sé á réttu róli núna í því erfiða verkefni að eiga við og ná tökum á þessum hallarekstri. Í það minnsta benda mínar upplýsingar til þess. Ég hef fullan hug á því að beita mér fyrir því að heilbrigðisþjónusta og heilsugæsla á öllum svæðum landsins verði sem best, ekkert síður á Suðurnesjum en annars staðar. Að því (Forseti hringir.) ber okkur öllum að vinna.