142. löggjafarþing — 26. fundur,  11. sept. 2013.

málefni Reykjavíkurflugvallar.

[16:17]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrst af öllu þakka hv. þm. Kristjáni Möller fyrir að taka þetta brýna mál upp hér á Alþingi. Spurningin er þessi: Er flugvöllurinn í Vatnsmýrinni einkamál Reykvíkinga og borgarfulltrúa þeirra? Nei er svarið og mér heyrist að þeir sem talað hafa í þessari umræðu séu sammála um það. Þetta snýr að almannahagsmunum, þetta snýr að öllum landsmönnum.

Í raun er um að ræða eitt stærsta hagsmunamál hinna dreifðu byggða á landinu. Hvernig sem fer, ef einhverjar flugbrautir verða teknar í burtu, mun það rýra lífsgæði stórs hluta landsmanna. Í raun eigum við ekki að vera að ræða þetta mál hér á Alþingi ef þetta er einkamál Reykvíkinga. En okkur kemur þetta við og þess vegna erum við að ræða þetta og þess vegna tel ég eðlilegast að skipulagsvaldið sé hjá kjörnum fulltrúum allrar þjóðarinnar en ekki kjörnum fulltrúum borgarinnar. Ég held að það sé eðlilegt.

Ég held að flestir séu sammála um að það sé eðlilegast að skipulagsvaldið sé hjá Alþingi hvað snertir Keflavíkurflugvöll, þ.e. að einstakir fulltrúar Reykjanesbæjar geti ekki hlutast til um framtíð landsins sem hann hvílir á. Ég held líka að flestir séu sammála um að þau sveitarfélög sem ná inn fyrir mörk þjóðgarðsins á Þingvöllum hafi ekki ein eitthvað um það að segja hvernig hlutast verði til um málefni þjóðgarðsins. Til þess höfum við Þingvallanefnd, ekki satt?

Ég mun leggja fram frumvarp þar sem ég legg til að þetta skipulagsvald verði fært til fulltrúa Alþingis. Ég tel eðlilegt að við ræðum það hér í rólegheitum hvar best sé að skipulagsvaldið sé. Ég er sannfærður, (Forseti hringir.) eftir að hafa kynnt mér þetta mál, um að best sé að það sé í höndum kjörinna fulltrúa allra landsmanna. En ég vil taka það fram (Forseti hringir.) að Framsóknarflokkurinn er einarður (Forseti hringir.) í þeirri afstöðu að flugvöllurinn eigi að vera áfram í Vatnsmýrinni og fyrir því liggja samþykktir flokksins.