142. löggjafarþing — 26. fundur,  11. sept. 2013.

málefni Reykjavíkurflugvallar.

[16:36]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég vil líkt og aðrir þingmenn þakka fyrir þessa ágætu umræðu og ítreka það sem ég hef sagt um málið í umræðunni í dag, að ég tel að hægt sé að ná sátt um það.

Verkefnið er skýrt, það er að reyna að tryggja það, alla vega yfir stóran hluta af þeim tíma sem þetta aðalskipulag nær, að völlurinn verði virkur og hægt sé að nýta hann til fulls. Það er verkefnið og það er mín vegferð og von að það takist í góðri sátt við Reykjavíkurborg. (Gripið fram í.) Það er verkefnið sem við stöndum frammi fyrir og ég vona og mun auðvitað upplýsa þingheim um það hvenær niðurstaða liggur fyrir í því og að það takist í sem bestri sátt við borgarstjórn Reykjavíkur.

Ég minni hins vegar aðeins á það, af því að aftur slær hjartað eilítið í borgarfulltrúanum fyrrverandi, að borgarstjórn Reykjavíkur er líkt og Alþingi Íslendinga lýðræðislega kjörin af fólkinu í Reykjavík sem ég held að hafi alveg vitað hvað var verið að kjósa og hverja var verið að kjósa. Það fólk fer með hið lýðræðislega umboð. Ég hef heldur aldrei heyrt borgarfulltrúana í Reykjavík tala þannig, en hér tala menn dálítið eins og borgarfulltrúar vilji völlinn endilega út úr Reykjavík. Það hefur ekkert verið afstaða borgarstjórnar Reykjavíkur heldur hefur það verið afstaða borgarstjórnar Reykjavíkur að ekki sé óeðlilegt að sveitarfélagið sé reiðubúið að skoða aðra staðsetningu í Reykjavík en bara þessa einu. Reykjavíkurborg hefur aldrei talað hátt og skýrt fyrir því að innanlandsflugvöllur skuli vera annars staðar. Reykjavíkurborg hefur alveg verið reiðubúin að axla sitt höfuðborgarhlutverk en hefur óskað eftir því að fá að skoða aðrar staðsetningar. Ég kannast ekki við þá umræðu í borgarstjórn Reykjavíkur að það sé vilji fyrir því að innanlandsvöllurinn fari úr Reykjavík heldur að möguleiki sé á að hann verði annars staðar.

Ég ítreka það sem ég hef oft sagt í þessu máli: Ég er mjög sáttfús í því. Ég held að það sé hægt að ná góðri sátt við borgarstjórn Reykjavíkur, alveg sama hvort það er núna eða eftir næstu kosningar. Ég held að borgarstjórn Reykjavíkur sé hópur af skynsömu fólki eins og hér er líka þannig að ég treysti því og vona að við náum sameiginlegri niðurstöðu sem tekur auðvitað mið af því sem menn hafa nefnt hér, hagsmunum allra landsmanna.