142. löggjafarþing — 26. fundur,  11. sept. 2013.

Hagstofa Íslands.

14. mál
[16:56]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tel þetta frá mínum bæjardyrum séð alls ekki fullnægjandi vegna þess að athugasemd Persónuverndar, hvað sem líður meðferð upplýsinganna, eyðingu þeirra og öðru slíku, lýtur að grundvallarþáttum sem er hvort lagaheimildin sem hér er lögð til samrýmist 71. gr. stjórnarskrárinnar eða fari í bága við hana eða 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Það er niðurstaða Persónuverndar að umrætt frumvarp, eins og það er, fari í bága við þessa grundvallarþætti í stjórnskipan okkar.

Þá er að mínu viti lausnin á því ekki sú að setja einhverjar reglur um það hvernig á að meðhöndla upplýsingarnar, hvernig á að eyða þeim og hver á að gera það o.s.frv. Það er bara ekki svar við þessari gagnrýni Persónuverndar. Það er ekki hægt að svara henni öðruvísi en að taka á því sem Persónuvernd er að segja, þ.e. því er varðar stjórnarskrána og mannréttindasáttmála Evrópu. (Forseti hringir.) Það er ekki gert í nefndaráliti meiri hlutans og ekki í breytingartillögum hans.