142. löggjafarþing — 26. fundur,  11. sept. 2013.

Hagstofa Íslands.

14. mál
[17:06]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Líneik Anna Sævarsdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mig langar að rifja upp það sem hv. þm. Helgi Hjörvar kom inn á hér að í kjölfar efnahagshrunsins 2008 beindist athygli stjórnvalda m.a. að skuldavanda heimilanna. Á 138. löggjafarþingi 2009–2010 og á 139. löggjafarþingi 2010–2011 voru lögð fram frumvörp efnahags- og viðskiptaráðherra til laga um rannsókn á fjárhagsstöðu skuldugra heimila. Þau frumvörp hlutu ekki brautargengi.

Um mitt ár 2011 var settur á stofn vinnuhópur Hagstofu Íslands, Seðlabanka Íslands, Fjármálaeftirlitsins og efnahags- og viðskiptaráðuneytis til að huga að því hvernig að þeim málum skyldi staðið. Lagði vinnuhópurinn fram tillögu um að Hagstofunni yrði falið það verkefni að safna og vinna tölfræði um skuldir heimila og fyrirtækja. Með samþykkt ríkisstjórnarinnar í október 2011 og með varanlegri fjárveitingu til Hagstofu Íslands var stofnuninni falið að vinna reglulega nýja tölfræði um fjárhagsstöðu heimila og fyrirtækja og birta ársfjórðungslega. Þá var ekki þörf á neinum sérstökum reglum um hvernig það yrði gert.