142. löggjafarþing — 26. fundur,  11. sept. 2013.

Hagstofa Íslands.

14. mál
[17:25]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Af því að forseti þingsins gengur hér í salinn þá veit ég ekki hvort það á að ávarpa Framsóknarflokkinn háttvirtan, hæstvirtan eða herra eða frú. [Hlátur í þingsal.] Frú maddama kannski, hefði einhvern tíma verið sagt, en það þarf nú að fá botn í þetta og forseti úrskurðar kannski um það á góðum degi.

Mér finnst það sem hér kemur fram vera mikilvægt innlegg. Ég spyr að því hvort nefndin muni fjalla frekar um málið á meðan það er í meðförum þingsins, t.d. þannig að það fari þá til nefndar á milli 2. og 3. umr., vegna þess að það er óhjákvæmilega innlegg í umræðuna. Til hvers á að nota þessar upplýsingar og á hvaða tímapunkti? Fyrir mér stangast hér aðeins á að það er verið að segja. Það var — það var sagt okkur, hefði einhver sagt — okkur var sagt hér í vor og sumar að tillögur um aðgerðir kæmu í nóvember. Nú er sagt að vinna Hagstofunnar fari fram einhvern tíma á vormissirinu þannig að það hangir ekki saman.

Mér finnst þetta undirstrika að ekki þarf þær upplýsingar frá Hagstofunni sem um er beðið í frumvarpinu til þess að klára verkefnið við að vinna að aðgerðum í þágu skuldsettra heimila nema sú tilgáta sé rétt að allar aðgerðir í þágu skuldsettra heimila eigi að bíða eftir vinnu Hagstofunnar sem ljúka á einhvern tíma með vorinu. Þá er alveg undir hælinn lagt miðað við starfsáætlun Alþingis hvort þær aðgerðir verða yfirleitt afgreiddar á næsta þingi eða kannski haustið 2014.