142. löggjafarþing — 26. fundur,  11. sept. 2013.

Hagstofa Íslands.

14. mál
[17:28]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni, framsögumanni minnihlutaálitsins, fyrir ágætisyfirferð yfir afstöðu minni hlutans og jafnframt þakka ég fyrir gott samstarf í nefndinni. Þetta hefur verið áhugaverður og líflegur tími og við höfum að mínu mati farið í sameiningu ágætlega yfir málin og reynt að nálgast hvert annað eftir því sem hægt er.

Fram kom fram í máli þingmannsins og í álitinu að menn eru í rauninni sammála um að markmiðin eru ágæt í sjálfu sér, þ.e. að reyna að ná fram einhverjum upplýsingum til þess að stjórnvöld geti byggt á þeim þegar taka á ákvarðanir, en minni hlutinn hefur í raun ekki bent á betri leið. Við erum þar annars vegar með fulltrúa flokka sem áður sátu í ríkisstjórn og höfðu þá veitt fjármuni til Hagstofunnar til þess að fara í þetta verkefni án þess að lögum yrði breytt. Sú leið var ekki fær og þess vegna var byrjað að vinna að máli sem þessu í tíð fyrri ríkisstjórnar. Hins vegar erum við með röksemdir um að allar upplýsingar liggi nú þegar fyrir í skattframtölum. Þess vegna þurfi ekki að gera neitt frekar.

Engu að síður ræddum við hér allt síðasta kjörtímabil, sama úr hvaða flokki við komum, um að til þess að hægt væri að taka vel ígrundaðar ákvarðanir um meðferð á skattfé almennings og ívilnandi ákvarðanir varðandi skuldug heimili og fyrirtæki þyrfti upplýsingar. Um það voru allir sammála og um það eru enn allir sammála, held ég. Menn vilja taka upplýstar ákvarðanir. Mig langar að beina þeirri fyrirspurn til hv. þingmanns sem mælir fyrir nefndarálitinu: Hvaða leið er það nákvæmlega sem menn benda hér á?