142. löggjafarþing — 27. fundur,  12. sept. 2013.

störf þingsins.

[10:36]
Horfa

Elín Hirst (S):

Herra forseti. Mig langar að gera að umtalsefni grein sem Jón Steinsson, hagfræðingur og aðstoðarprófessor við Columbia-háskólann, skrifaði nýlega og vakti athygli mína og áhuga.

Heimsmarkaðsverð á endurnýjanlegri orku, eins og þeirri sem við höfum upp á að bjóða, hefur hækkað verulega á síðustu árum. Þessi þróun hefur gert það að verkum að orkuauðlindir okkar eru margfalt verðmætari en þær voru fyrir áratug.

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, sagði á ársfundi fyrirtækisins að lagning sæstrengs til Evrópu væri líklega stærsta viðskiptatækifæri sem Íslendingar hefðu staðið frammi fyrir, margt benti til þess að áhrif sæstrengs mundu stórbæta lífskjör Íslendinga.

Jón Steinsson hagfræðingur segir í greininni að stór hluti þeirrar orku sem við mundum selja um þennan streng, líklega 30–40%, yrði umframorka sem nú þegar er til staðar. Þar sem álverin eyðileggjast ef slökkt er á þeim í meira en örfáar klukkustundir hefur Landsvirkjun þurft að byggja virkjanir sem eru nægilega stórar til að geta annað orkuþörf álveranna, jafnvel á versta tíma í afleitu vatnsári. Öll hin árin, þegar vatnsbúskapurinn er góður, flæðir talsvert vatn fram hjá algjörlega óbeislað. Verðmætin sem þarna fara forgörðum skipta tugum milljarða. Með sæstreng væri hægt að fanga þessa umframorku og selja með litlum tilkostnaði.

Ég legg því til að ríkisstjórnin láti skoða þetta mál af fullri alvöru, t.d. með því að sannreyna áhuga Breta á því að kaupa þessa orku ef ráðist yrði í lagningu sæstrengs.