142. löggjafarþing — 27. fundur,  12. sept. 2013.

störf þingsins.

[11:01]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Í tvö og hálft ár hefur staðið yfir borgarastyrjöld í Sýrlandi. Sjö milljónir manna hafa hrakist frá heimilum sínum. Fjórar milljónir eru vegalausar innan Sýrlands, tvær milljónir manna hafa flúið til nágrannalandanna. Fyrir hálfu ári var sú tala ein milljón en hefur tvöfaldast á um hálfu ári. Við heyrum fréttir af því að um 100 þúsund manns hafi þegar látið lífið og nokkrir af þeim sem sinna mannúðarstörfum á þessu svæði hafa einnig látið lífið í þeirri borgarastyrjöld sem nú geisar. Þar geisar nú væntanlega eins sú mesta neyð sem alþjóðlegar hjálparstofnanir þurfa að takast á við og hafa þurft að takast á við á undanförnum árum.

Nýlega bárust þær fréttir frá Svíþjóð að sænsk stjórnvöld hefðu ákveðið að veita sýrlenskum flóttamönnum sérstaka meðferð þannig að þeir sem koma til landsins og fá tímabundið dvalarleyfi af mannúðarástæðum fái sjálfkrafa landvistarleyfi til frambúðar.

Vissulega er hópur flóttamanna frá Sýrlandi stór og mikill og það er augljóst að ekki verður hægt að taka við þeim öllum á Vesturlöndum. En ég vil nota þetta tækifæri, herra forseti, til þess að vekja máls á því hryllilega ástandi sem þarna varir og hvetja til þess að íslensk stjórnvöld taki málið til umfjöllunar og taki það svipuðum tökum og þau sænsku hafa gert og sýni rausnarskap í verki gagnvart þurfandi flóttamönnum frá Sýrlandi.