142. löggjafarþing — 27. fundur,  12. sept. 2013.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[11:54]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Þetta eru ákaflega athyglisverð umræða. Ég verð að viðurkenna, alveg eins og eftir fund í utanríkismálanefnd um þessi mál, að ég er ekki alveg með það á hreinu hvert við erum að fara með þetta mál.

Ég ætla því að leggja til og vitna í þingsályktunartillögu sem var lögð fram á sumardögum af hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni sem er eins og hér hljómar, með leyfi forseta:

„Tillaga til þingsályktunar um þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að undirbúa þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu sem fram fari samhliða sveitarstjórnarkosningum vorið 2014.

Jafnframt ályktar Alþingi að þær úttektir sem framkvæmdarvaldið hefur boðað á stöðu samninga og þróun innan Evrópusambandsins skuli unnar í samvinnu þings og ríkisstjórnar. Heimilt skal að kveðja til vinnunnar bæði erlenda og innlenda sérfræðinga. Niðurstöður úttektanna liggi fyrir 1. desember 2013 og verði þá þegar lagðar fram til umræðu á Alþingi og kynntar þjóðinni sameiginlega af Alþingi og ríkisstjórn til undirbúnings þjóðaratkvæðagreiðslu við sveitarstjórnarkosningarnar 2014.“

Forseti. Mér finnst þetta lausn á þessu vandamáli, þessum óskýrleika. Ég skora á formann utanríkismálanefndar að afgreiða þingsályktunartillöguna úr nefnd svo að við getum greitt um hana atkvæði áður en við förum heim í næstu viku. Þá er þetta mál komið í þannig ferli að við virðum þann yfirgnæfandi vilja þjóðarinnar að fá að hafa um það þjóðaratkvæðagreiðslu og halda þessu ferli áfram.

Ég verð að viðurkenna að mér finnst mjög skringilegt að leysa upp samninganefndirnar því að það var fullkomið samráð og ánægja með þessa hópa í þá veru að þeir stæðu vörð um hagsmuni Íslands og stæðu sig vel í þessum samningagerðum. Það var þverpólitísk samstaða um þessa hópa. Þarna finnst mér hæstv. utanríkismálaráðherra hafa farið fullbratt. Mér finnst óþægilegt að ekki sé haft meiri samvinna við þingið um það hvernig við ætlum að haga verkferlum í kringum þetta mál því að ef við þurfum að byrja upp á nýtt, ef þjóðin ákveður að hún vilji halda áfram og ef hæstv. ríkisstjórn ætlar að virða þjóð sína og leyfa henni að kjósa um þetta þá er mjög skringilegt að fara kannski að kalla aftur til eitthvert annað fólk í þessar nefndir. Nú þegar hefur skapast ákveðin þekking og reynsla í þessum samningahópum og í raun og veru hefur ekkert verið umdeilt við þeirra störf. Það hefur verið almenn ánægja hjá öllum flokkum með þeirra störf. Það hefur komið fram í nefndarstörfum sem m.a. núverandi hæstv. ráðherra tók þátt í. Aldrei heyrði ég miklar deilur eða illindi um þessa hópa nema einstöku sinnum varð smáæsingur í kringum einhver búnaðarþing eða eitthvað slíkt. Til dæmis var almennt séð ánægja með störf aðalnefndarinnar.

Síðan hefur líka komið fram í öllu þessu ferli og mikið gengið á — væntanlega hefur verið mikið fjör hjá hæstv. utanríkisráðherra í kringum allar þessar ákvarðanir sem hann hefur sennilega fullt umboð til — að þetta er ekki í anda þess sem núverandi hæstv. ráðherra talaði um þegar hann var ekki ráðherra, þegar hann var óbreyttur þingmaður. Þá kallaði hann eftir nákvæmlega því sem hann er ekki að gefa þinginu í dag, þ.e. samvinnu og meiri aðkomu að málinu og að meira væri hlustað á þingmenn.

Síðast en ekki síst, og það er kannski alvarlegast í þessu ferli, hefur verið ákveðið að hunsa vilja þingsins. Þingið ályktaði og fól fyrrverandi ríkisstjórn og núverandi að gera ákveðna hluti. Ríkisstjórnin getur ekki snúið því við nema bera það undir þingið. Það liggur mikið undir. Og þó svo að það hafi komið fram minnisblað úr utanríkisráðuneytinu um hvernig framkvæmdarvaldið ætlaði sér að túlka niðurstöður þingsályktana þá er ekki einróma samþykkt um það, hvorki inni á þingi né úti í samfélaginu. Það þýðir einfaldlega að þótt allir í þinginu segi já við þingsályktunartillögu sé hægt að hunsa þingsályktunina ef hún er ekki samkvæmt einhverju lögformlegu „bla bla“. Ætlar hæstv. núverandi utanríkisráðherra til dæmis að segja við okkur hér í þinginu að hann ætli ekki að virða þingsályktun um það hvernig við ætlum að bregðast við skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, hvernig við ætlum að laga til í íslensku samfélagi? Ætlar hæstv. ráðherra ekki að virða þá þingsályktun þrátt fyrir að gjörvallt Alþingi segði já við henni?

Ég held að besta leiðin út úr þeim vandræðum sem eru út af því að enginn veit hvert er verið að fara með þetta mál sé einfaldlega sú að formaður hv. utanríkismálanefndar hleypi þingsályktunartillögu hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar í gegnum sumarþingið þannig að enginn vafi verði lengur og við getum annaðhvort haldið áfram í þessu ferli eða ekki, en fyrst og fremst eigum við að leyfa þjóðinni að taka þessa ákvörðun.

Hæstv. ráðherra utanríkismála, Gunnar Bragi Sveinsson, sagði jafnan á síðasta þingi, ásamt mörgum öðrum, að það væri rétt að þjóðin fengi að taka ákvörðun um hvort við ætluðum að vera í þessum aðildarviðræðum eða ekki. Hvað hefur breyst?