142. löggjafarþing — 27. fundur,  12. sept. 2013.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[12:07]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Framganga ríkisstjórnarinnar í málum er varða aðild Íslands að Evrópusambandinu er ámælisverð. Hún er það vegna þess að ríkisstjórnin göslast áfram með utanríkisráðherrann í broddi fylkingar með það að markmiði að reyna að koma málum svo fyrir að aðildarferlið stöðvist án þess að hafa til þess umboð þingsins. Og hún forðast að koma inn í þingið og æskja skýrs umboðs.

Utanríkisráðherra hefur gengið fram með lögfræðiálit, hann er vopnaður lögfræðiáliti, til að reyna að finna því stað að hann sé ekki bundinn af ályktun Alþingis. Það lögfræðiálit verður götóttara og götóttara eftir því sem meira er lesið í því. Forsendurnar sem menn gefa sér í álitinu eru rangar. Allt byggir það á tilvitnun í einn danskan fræðimann. Hins vegar eru höfundar álitsins svo óheppnir að hafa sést yfir það að sá sami fræðimaður skrifaði sérstaka grein um sérstöðu utanríkismála í þessu samhengi og komst að þeirri niðurstöðu að þingheimur í Danmörku hafi alltaf stjórnað gerðum ríkisstjórnar í utanríkismálum.

Það er þingræðisvenja á Íslandi og hana ber að virða. Öll stór skref í utanríkismálum þjóðarinnar hafa alla 20. öld og allt fram á þennan dag stafað frá Alþingi Íslendinga, hvort sem það er þingsályktunartillaga Tryggva Þórhallssonar 1931 um að Ísland æski upptöku í Þjóðabandalagið, þingsályktunin um aðild að Sameinuðu þjóðunum 1946, aðildin að NATO 1948, aðildin að EFTA 1970 og svo aðildin að ESB 2009. Það er ekki rétt að þetta séu þingsályktanir í skilningi 21. gr. stjórnarskrárinnar, þetta eru þvert á móti þingsályktanir sem veita umboð til samninga og síðan í kjölfarið, eftir að samningur liggur fyrir, er sá samningur lagður fyrir þingið og staðfestur með þingsályktun í samræmi við 21. gr. stjórnarskrárinnar.

Virðulegi forseti. Sú ákvörðun sem hæstv. utanríkisráðherra kynnti í morgun hefur ekki verið tekin að undangengnu samráði við utanríkismálanefnd. Hann sagðist á fundi með utanríkismálanefnd nýverið vera að hugleiða það, en 24. gr. þingskapalaga um samráð við utanríkismálanefnd hefur ekki verið virt. Maður spyr líka: Hvar er ákvörðun ríkisstjórnarinnar? Hvar er hin formlega afgreiðsla ríkisstjórnarinnar á þessu máli? Verður þá að vitna til nýgengins landsdóms sem gerir ríkar kröfur um að ríkisstjórnin komi að umfjöllun um meiri háttar mál, því að væntanlega er upplausn samninganefndarinnar meiri háttar utanríkismál.

Virðulegi forseti. Ríkisstjórnin leggur til úttekt á stöðu aðildarviðræðna og stöðu Evrópusambandsins. Það finnst mér í sjálfu sér skynsamleg hugmynd. Ég held að það gæti verið okkur mjög gott að fara yfir málið af yfirvegun hér á Alþingi í vetur. En það verður þá þeim mun óskiljanlegra að ríkisstjórnin taki skref eins og það að leysa upp samninganefnd án þess að hafa séð niðurstöðu þeirrar úttektar. Tilgangur úttektarinnar verður veigaminni og grafið er undan þinglegu forræði á sviði utanríkismála sem íslensk stjórnskipun og íslenskt þingræði hvílir á.

Ísland býr við undarlegar aðstæður. Við erum land í höftum, hagvöxtur er lítill og okkur gengur illa að fjölga verðmætum störfum. Fram undan eru kjarasamningar þar sem innlegg hæstv. fjármálaráðherra er að biðja menn að stilla kröfum í hóf þegar menn hafa horft fram á hrikalega kjaraskerðingu sem afleiðingu af veikburða gjaldmiðli. Staða þjóðarinnar í alþjóðlegum samanburði er grafalvarleg.

Launakjör og kaupmáttur þjóðarinnar í samanburði við nágrannalönd er þannig að það þarf að fara alla leið í austurhluta Evrópu til ríkja sem nýverið hafa gengið til liðs við Evrópusambandið til þess að finna hliðstæður í kaupmætti. Við þessar aðstæður er það gríðarlegt alvörumál að loka leiðum íslenskrar þjóðar til aukinnar verðmætasköpunar og betri kjara og að koma í veg fyrir að við getum byggt velsæld okkar á traustari grunni.

Ég vil þess vegna undirstrika mikilvægi þess að við tökum alvöruumræðu um aðild að Evrópusambandinu. Við erum að flytja störf úr landi vegna þess að EES-samningurinn dugar okkur ekki lengur. Við erum í sjálfheldu gjaldeyrishafta og það er brýnt að íslensk þjóð meti þessa stöðu af fullri yfirvegun í vetur.