142. löggjafarþing — 27. fundur,  12. sept. 2013.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[12:29]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Herra forseti. Hæstv. utanríkisráðherra, þakka þér fyrir greinargerð þína. Afstaða okkar í Bjartri framtíð er að ljúka eigi viðræðunum og leggja samninginn í dóm þjóðarinnar. Við teljum að það eigi alltaf að taka afstöðu út frá bestu vitneskju. Við getum ekki tekið afstöðu í þessu máli út frá getgátum um það hvernig samningurinn muni hugsanlega líta út.

Mér finnst margt í umræðunni um Evrópusambandið skrýtið og mér finnst merkilegt hversu langt er gengið í að ala á ótta; Evrópusambandið er gert tortryggilegt með ýmsum ráðum og jafnvel kennt um allt sem miður fer í álfunni. Mér finnst ein fullyrðing lýsa þessum hræðsluáróðri hvað best og hún er: „Sjáið bara Grikkland“, eða „sjáið bara Spán og Portúgal.“

En síðan hvenær fórum við að bera okkur saman við Grikkland eða lönd Suður-Evrópu? Við eigum það vissulega sameiginlegt með þessum löndum að við kusum yfir okkur stjórnvöld sem stóðu sig illa og það leiddi til efnahagshörmunga, en það hefur ekkert með Evrópusambandið að gera. Þjóðir Evrópu bera algerlega ábyrgð á eigin stjórnvöldum. Mér er því eiginlega fyrirmunað að skilja af hverju alltaf er verið að blanda Grikklandi inn í Evrópusambandsumræðuna á Íslandi. Væri ekki nær að við segðum þá: „Sjáið bara Svíþjóð, sjáið bara Finnland, sjáið bara Danmörku og sjáið bara Austurríki, Þýskaland, Holland, Belgíu, Lúxemborg“?

Fullt af löndum í Evrópu vegnar vel og öðrum vegnar verr. Þannig er það bara. Evrópusambandið er aldeilis ekki gallalaust en ræðum þá raunverulegu ókostina sem fylgja því að ganga í Evrópusambandið því að þeir eru alveg fyrir hendi. Okkar hlutverk er í rauninni bara að meta hvort kostirnir séu fleiri en gallarnir. Þetta með „Sjáið bara Grikkland“ eru ekki boðleg rök.

Eins og ég sagði er það afstaða okkar í Bjartri framtíð að klára eigi aðildarviðræðurnar og við teljum það mikil mistök að okkar frábæra samninganefnd hafi verið leyst frá störfum.

Ríkisstjórnarflokkarnir lofuðu þjóðinni þjóðaratkvæðagreiðslu um það hvort halda ætti viðræðum áfram. Nú virðist allt í einu lítill áhugi á því. Það vantaði þó ekki áköll allt síðasta kjörtímabil um að þjóðin fengi að segja sitt. Þá þótti Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum mjög mikilvægt að hlustað væri á þjóðina í þessu máli, það væri lýðræðislegt. Hvað breyttist?