142. löggjafarþing — 27. fundur,  12. sept. 2013.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[13:00]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir skýrslu hæstv. utanríkisráðherra og þá umræðu sem verið hefur um hana í dag.

Ég vil byrja á að taka það fram að ég er mjög ánægður með í hvaða farvegi þetta mál er. Það liggur alveg ljóst fyrir að hæstv. utanríkisráðherra fylgir stefnu ríkisstjórnarinnar sem samþykkt var og stefnu Framsóknarflokksins mjög vel eftir. Ég vil segja að þau verkefni sem hæstv. utanríkisráðherra hefur verið að framkvæma eru fullkomlega innan ramma og innan stefnu ríkisstjórnarinnar, meðal annars það sem fréttist af í dag, þ.e. að leysa upp samninganefndirnar. Þetta er það sem felst í þessu raunverulega hléi. Hv. þm. Birgir Ármannsson, formaður utanríkismálanefndar, fór mjög vel yfir það í ræðu sinni áðan ásamt hæstv. ráðherra í hvaða farvegi málið er. Við bíðum skýrslu sem unnin verður um málið og hún kemur síðan til umræðu á Alþingi. Hv. þm. Birgir Ármannsson fór vel yfir þá valmöguleika sem eru þar í stöðunni.

Það hefur verið mjög sérstakt að fylgjast með umræðunni í dag, sérstaklega af hálfu stjórnarandstæðinga, til dæmis hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni. En þó var eitt sem kom reglulega fram í máli hv. þingmanns sem ég held að rétt sé að fara aðeins dýpra ofan í þegar hv. þingmaður talaði um hver sé hinn pólitíski veruleiki málsins. Hver er hinn pólitíski veruleiki þessa máls?

Staðreyndin er sú að við erum í dag með ríkisstjórn sem er mótfallin því að ganga í Evrópusambandið. Stjórnarandstaðan heldur því fram að við eigum að halda aðildarviðræðum áfram og það eigi síðan að útkljá málið í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þessi sama stjórnarandstaða sagði það ítrekað fyrir ekki svo löngu — reglulegir fundir voru í Samfylkingunni vegna þess að þá var ráðherra í ríkisstjórninni sem var mótfallinn Evrópusambandsaðild, var ekki tilbúinn til að taka þátt í aðlögunarferli, var ekki tilbúinn til að taka við IPA-styrkjum til aðlögunar. Og honum varð að víkja úr ríkisstjórn. Honum var vikið úr utanríkismálanefnd síðar. Þetta var þáverandi hv. þingmaður, Jón Bjarnason. En nú vill stjórnarandstaðan að skoðanabræður hans varðandi Evrópusambandsmálið, meðal annars frá utanríkismálanefnd, hæstv. utanríkisráðherra, hæstv. forsætisráðherra, hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. iðnaðar- og nýsköpunarráðherra haldi áfram aðildarferlinu, Evrópusambandsandstæðingar, þegar þeir sjálfir á sínum tíma settu til hliðar einstakling sem deildi nákvæmlega sömu skoðunum.

Það blasir auðvitað við að ekki er mögulegt að halda áfram aðildarviðræðum við Evrópusambandið þegar við völd er ríkisstjórn, stjórnarflokkar sem vilja ekki ganga í Evrópusambandið. Á þessu áttuðu Samfylkingin og Vinstri grænir sig á þegar þeir voru hluti af ríkisstjórnarliðinu. Evrópuþingmenn átta sig á þessu, Evrópuþingmenn sem við ræddum við á sameiginlegum fundi sem haldinn var á Hótel Loftleiðum núna í sumar.

Það er algerlega skýrt að það verður að liggja fyrir pólitískur vilji vegna þess að ráðuneytin, undirstofnanirnar og annað þurfa að taka á sig gríðarlega stór verkefni sem snúa meðal annars að því að laga íslenskt regluverk að Evrópusambandinu. Þetta getur ekki gengið nema við séum með ríkisstjórn sem vill ganga í Evrópusambandið. Þess vegna er svo skrýtið að hlusta á fulltrúa stjórnarandstöðunnar tala í dag eins og það sé ekkert mál að halda þessu áfram þegar veruleikinn er auðvitað allur annar. Þessir einstaklingar áttuðu sig á því fyrir kosningar.

Það sem þarf að vera til staðar til að halda áfram aðildarviðræðum er skýr vilji íslenskra stjórnvalda til að ganga í Evrópusambandið og skýr vilji íslenskrar þjóðar til að ganga í Evrópusambandið.