142. löggjafarþing — 27. fundur,  12. sept. 2013.

Hagstofa Íslands.

14. mál
[13:51]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Við ræðum hér tvö nefndarálit, minnihluta- og meirihlutanefndarálit frá hv. allsherjar- og menntamálanefnd sem hefur verið að vinna í þessu máli.

Ég verð að segja að málið hefur batnað mjög mikið í meðferð nefndarinnar og af umræðunni hér sem hefur verið mjög jákvæð, líka frá þeim sem eru á móti málinu. Það segir mér að ef menn hefðu haft örlítið meiri tíma þá hefðu þeir örugglega náð lendingu. Það leiðir hugann að því hvort ekki hefði verið skynsamlegra fyrir ráðherrann að beina málinu beint til nefndarinnar og biðja hana um að vinna málið á sínum tíma í stað þess að vinna það sjálfur, setja það í ferlið og síðan kemur stjórnarandstaðan ekki að því fyrr en seint og síðar meir. Þetta er eitthvað sem menn hefðu þurft að skoða því að menn eru allir sammála um vandann og flestir eru sammála um lausnina, en menn geta náttúrlega haft mismunandi skoðanir á því.

Fjárhagsvandi heimilanna hefur verið mikið í umræðunni, sérstaklega skuldavandinn. Um neikvæða eiginfjárstöðu hefur mjög mikið verið rætt, að mínu mati fullmikið, vegna þess að þetta snýst líka um greiðslugetu, ekki bara eignastöðu. Þetta hefur verið viðloðandi úti á landi síðan ég man eftir mér. Þeir sem byggðu hús úti á landi lentu í því að eiginfjárstaðan var neikvæð vegna þess að söluverð eigna úti á landi stóð engan veginn undir byggingarkostnaði. Menn lentu yfirleitt í því að verða með neikvæða eiginfjárstöðu, þ.e. þeir sem byggðu úti á landi. Menn höfðu ekki miklar áhyggjur af því á þeim tíma.

Menn hafa verið að tala um forsendubrest, eitthvert nýtt hugtak vegna skyndilegrar 18% verðbólgu og 40% gengisfalls. Ég man þá tíð þegar verðbólga var 130% og þá ræddi enginn um forsendubrest, en það er margt sem breytist.

Mikil krafa hefur verið um að löggjafinn grípi inn í þetta vandamál og grípi til úrræða. Stjórnarsáttmáli núverandi ríkisstjórnar ber þess keim og öll kosningabaráttan. Mér hefur oft liðið á þeim fjórum eða fimm árum frá hruni, það eru komin fimm ár núna, eins og stýrimanni sem stýrir skipi um skerjagarð og búið er að draga fyrir alla glugga, maður sér ekkert út. Það er óþægileg tilfinning. Og það er óþægileg tilfinning að vera krafinn um að gera ráðstafanir þegar maður veit ekki hver hin raunverulega staða heimilanna er og ég hef margkallað eftir því. En meiri upplýsingar um stöðu heimilanna gerir kröfu um meiri persónuupplýsingar. Það eru tveir vondir kostir, að vita ekki um stöðu heimilanna og hins vegar að ganga á mannréttindi, þ.e. meiri persónuupplýsingar.

Ég flutti reyndar frumvarp í nóvember 2010 um hvernig eigi að taka á þessu. Þar lagði ég verulega mikla áherslu á dulkóðun, verulega sterka dulkóðun og að þrír aðilar þyrftu að koma að því vegna þess að ég gerði mér grein fyrir þessum vanda með persónuverndina.

Ég hef reyndar daufar upplýsingar um stöðu heimilanna. Starfsmenn Seðlabankans hafa unnið góða skýrslu um skuldug heimili. Það er fjöldi heimila sem ekki skuldar vegna íbúðarinnar sinnar, ég kem inn á það á eftir. Þetta var góð vinna. Mér sýnist á öllu þegar maður skoðar landslagið að um það bil 27% heimila eru leigutakar, voru 18% fyrir nokkrum árum, ekki mörgum, skulda sem sagt ekki í íbúðum sínum. Svo sýnist mér, og það er líka svona veik tilfinning, að 21% heimila skuldi ekki í íbúðum sem fólk býr í. Það er minn árgangur að einhverju leyti. Það fólk er búið að borga niður skuldirnar, skuldar ekki neitt en er oft í vanda vegna þess að tekjurnar eru lágar, lífeyririnn er lágur o.s.frv. og skattlagning er mikil á húsnæði. Það er því rétt rúmlega helmingur heimila sem skuldar í sinni eign. Það er landslagið, sýnist mér. Og af þeim er góður hluti sem ræður ósköp vel við sínar skuldir. Það er einhver hluti, kannski 10% af öllum heiminum, kannski 20%, sem er í miklum og óleysanlegum vanda út af hruninu.

Það hefur margt verið gert og margt mun gerast og þeir sem hafa verið duglegastir í að gera eitthvað fyrir heimilin eru dómstólarnir. Gengislánin munu bæta stöðu heimilanna allverulega en sú leiðrétting er ekki komin fram í þeim gögnum sem við höfum þannig að staða heimilanna mun batna enn frekar. Síðan kom fram í dagblöðum í gær eða fyrradag frá Seðlabankanum að staðan væri ekkert voðalega slæm og hefði batnað mikið. Ljóst er að síðustu þrjú eða fjögur árin hafa laun hækkað meira en skuldir og eignir hafa hækkað meira en skuldir. Staðan er því að batna.

Hér er gerð krafa um að ganga mjög langt á persónuvernd til að fá upplýsingar um þá stöðu sem ég er að reyna að lýsa hérna með daufum hætti. Heimilin fjárfesta í tvennu um ævina. Það er húsnæði annars vegar og menntun hins vegar. Á móti húsnæðisláninu kemur eign sem hægt er að taka á og sjá en á móti námsláninu kemur engin eign, þar myndast bara skuldir, en samt er menntun virkilega mikil eign. Verkfræðingur er með hærri laun en verkamaður svo ég tali nú ekki um lækna. Menntun er eign en hún er ekki sýnd, og það myndast skuld hjá heimilunum. Þetta finnst mér að menn þurfi líka að ræða. Svo er hérna fyrirbæri eins og yfirdráttur og neysluskuldir sem ég hef bara ekki skilið. Ég hef ráðlagt mönnum mörgum sinnum að vera ekki að taka lán fyrir neinu öðru en íbúð og menntun. Það er raunveruleg eign, hvort tveggja. Bíla eiga menn að staðgreiða, síma, ég tala nú ekki um slíka hluti og heimilistæki því að menn borga þetta hvort sem er, bara nokkrum mánuðum eða árum seinna og þá er alveg eins gott að fresta neyslunni pínulítið. Fyrst menn gátu komist af með flottan nýjan síma hingað til þá geta þeir það örugglega einhverja mánuði í viðbót. Vandinn er því óljós og að mínu mati ekki eins mikill og menn vilja vera láta en hann er alvarlegur hjá þeim sem eru í vanda. Og krafan er sú að menn kanni þetta.

Þá vil ég tala um persónuverndina. Persónuvernd er tengd mannréttindum og friðhelgi heimilisins. Margir hafa sagt: Mér er svo sem alveg sama þó menn viti allt um mig. Ég hef sagt við fólk: Af hverju ertu þá með gluggatjöld yfirleitt og af hverju læsir þú baðherberginu þínu o.s.frv.? Persónuvernd er nefnilega mannréttindi en það er ekki alveg sama hver veit um mig. Þetta vissi Stasi í Austur-Þýskalandi. Þeir vissu hve það var mikilvægt að vita um einstaklinga eða töldu sig vita það.

Við höfum veitt ríkisskattstjóra óheyrilega miklar heimildir, ótrúlega miklar heimildir eftir hrun þegar hann fékk allar fjármagnsupplýsingar úr bönkunum, bæði eignir og skuldir, innstæður, vexti og allt. Þetta dældist allt til ríkisskattstjóra. Hann hefur miklar upplýsingar. Ég man ekki eftir að menn hafi talað mikið um persónuvernd í því sambandi, þannig að það frumvarp sem við ræðum nú bætir ekki voðalega miklu við. Það gerir það reyndar að verkum að menn fá upplýsingar miklu hraðar en ríkisskattstjóri. Hann er með það allt að einu ári seinna, eða tveimur árum í versta tilfelli, en hér er verið að veita upplýsingar sem koma miklu hraðar inn.

En það er margt, margt annað sem ógnar persónuöryggi okkar, til dæmis gemsinn minn, sem er reyndar niðri. Gemsinn minn segir hvar ég er staddur. Hægt er að rekja það dag fyrir dag, klukkutíma fyrir klukkutíma hvar ég er staddur. Það er ágætt þegar þarf að miða út fólk sem týnist en mér líður ekki vel með að menn viti nákvæmlega hvar ég er staddur. Menn vita til dæmis núna að ég er á 2. hæð í Alþingishúsinu.

Það sem vantar inn í þetta dæmi, sem ég ætla að biðja nefndina að fara í gegnum af því að þetta fer til nefndarinnar, eru leigutakar. Við ræðum á eftir um stöðu leigutaka. Hún er bara skelfileg í stuttu máli sagt og það hefur lítið eða ekkert verið rætt um hana. Ég held að ég sé eini þingmaðurinn sem á síðasta kjörtímabili talaði yfirleitt um leigutaka. Staða þeirra er mjög slæm. Mér sýnist á þeim upplýsingum sem menn ætla að afla að það verði ekkert upplýst um þá stöðu. Ég vil að nefndin bæti því við að upplýsinga verði aflað um leigusamninga og annað slíkt þannig að menn viti líka um þessi 27% heimilanna sem eru mörg að borga verðtryggða leigu. Fólk er í ótryggu húsnæði á leigumarkaði þar sem mjög fáar leiguíbúðir er að hafa, alla vega í Reykjavík. Ég vildi gjarnan að nefndin skoðaði það að víkka þetta út ef á að fara í þetta á annað borð, að þessi 27% heimila í landinu verði könnuð líka.

Þegar menn tala um persónuvernd og fylgjast með umræðu í Evrópu rekast þeir strax á verulega mikla umræðu í kjölfar uppljóstrana Snowdens, sem nú er í Rússlandi. Hann upplýsti um það að Bandaríkin, NSA, National Security Agency, fái upplýsingar um mjög margt. Og nú vil ég benda hv. þingmönnum á að símtal er ekkert annað en hljóðskrá sem hægt er að geyma inni í tölvu. Hún er flutt um ljósleiðara og hægt er að þýða hljóðskrá yfir á prentmál, yfir á íslensku og svo er hægt að þýða það á önnur tungumál, t.d. ensku. Ég geri ráð fyrir að slíkar upplýsingar sem eru geymdar hér í gegnum ljósleiðara, þeim sé skutlað fram og til baka í heiminum til að taka afrit og annað slíkt. Það er ótrúlegur tilflutningur á gögnum sem ég held að almenningur geri sér almennt ekki grein fyrir. Það getur verið að eitthvert símtal sem ég átti í gær sé geymt núna í Brasilíu. Allt fer þetta í gegnum ljósleiðara og það er möguleiki á að einhver komist í þetta og búið sé að þýða símtalið mitt frá því í gær yfir á ensku. Þetta er tæknilega mögulegt og þá segja menn: Ja, 1 milljarður eða 2 milljarðar manna, það er ekki hægt að fylgjast með þeim, það er svo mikið magn af gögnum. En það er alveg ótrúlegt hvað hægt er að vinna úr þessu. Hægt er að vinsa vissa menn úr, þingmenn eru um 40 þúsund í heiminum og ef við tökum fleira VIP-fólk, „very important persons“, mikilvægt fólk í atvinnulífi, viðskiptalífi, verkalýðshreyfingu og öðru þá eru það kannski um 200 þúsund manns. Það er ekkert mál að geyma upplýsingar, ekkert mál, tíu ár aftur í tímann, öll símtöl, öll SMS, allt sem þeir gera.

Mér finnst þetta vera uggvænlegt, uggvænleg þróun, og mér finnst að við þurfum að ræða þetta miklu betur en þá persónuvernd sem við erum að standa vörð um í þessu máli. Þó að hún sé líka mikils virði þá vegur hún að mínu mati miklu minna. Þetta hefur lítið verið rætt hér á landi, þær uppljóstranir sem koma fram hjá Snowden. Á sínum tíma í vor sagði ég að það væru áhöld um hvort hann væri hetja eða skúrkur og ég held að við þurfum að ræða það hvort hann er hetja eða skúrkur, hvort skúrkurinn sé ekki sá sem er að safna þessum gífurlegu upplýsingum. Það er spurningin mín og hvort persónuvernd og friðhelgi einkalífsins sé ekki þarna fyllilega brotin. En þetta eru spurningar sem ég varpa fram og ég vil að hv. þingmenn skoði þessi mál alvarlega.

Nú getum við svo sem ekki gert mikið í því að breyta heimsmálunum eða breyta upplýsingasöfnun í heiminum en ég vil leggja mitt litla lóð á vogarskálarnar, að menn alla vega hugleiði það.

Svo vil ég að endingu, herra forseti, leggja áherslu á að hv. nefnd skoði stöðu leigutaka ekki síður en skuldugra heimila, sem eru töluvert færri en mörg í mjög erfiðri stöðu.