142. löggjafarþing — 27. fundur,  12. sept. 2013.

Hagstofa Íslands.

14. mál
[14:06]
Horfa

Frsm. minni hluta allsh.- og menntmn. (Helgi Hrafn Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri H. Blöndal fyrir ræðuna, hann fór inn á margt sem er mjög mikilvægt að ræða. En mig langar að spyrja í stuttu máli: Með hliðsjón af þeim tækniframförum sem eiga sér stað og hafa átt sér stað síðustu þrjá til fjóra áratugi, seinustu öld eiginlega, er þá ekki sérstaklega mikilvægt að við Íslendingar reynum í það minnsta að vera til fyrirmyndar þegar kemur að löggjöf um friðhelgi einkalífsins? Er ekki mikilvægt, einmitt vegna stöðunnar í heiminum og brota NSA til dæmis, sem þó eru frá Bandaríkjunum — athugið, friðhelgi einkalífsins á að vera tryggð í stjórnarskrá Bandaríkjanna. Þeir telja sig ekki brjóta hana vegna þess að þeir hafa í gegnum tíðina alltaf fundið fleiri og fleiri ástæður til að ganga á friðhelgi einkalífsins, IV. viðauka stjórnarskrár Bandaríkjanna.

Ég óttast, og við píratar og fleiri, að sama þróunin eigi sér stað hér. Burt séð frá því hvaða heimildir hafa verið veittar í fortíðinni réttlætir það ekki að við getum endalaust gengið lengra. Einhvers staðar þurfum við að segja stopp. Einhvers staðar þurfum við að átta okkur á því að við höfum kannski þegar gengið of langt og ættum ekki að ganga lengra. Við ættum að skoða friðhelgi einkalífsins með hliðsjón af því að styrkja hana í staðinn fyrir að finna sífellt fleiri og fleiri ástæður — sem við munum finna — til þess að á ganga á það.

Mig langar því að spyrja hv. þm. Pétur H. Blöndal hvort hann telji ekki frekar að við ættum að salta þetta mál í bili og ræða það upp á nýtt í nefndinni á haustþingi og þá með hliðsjón af friðhelgi einkalífsins, með hliðsjón af njósnum NSA og ástandinu í heiminum.