142. löggjafarþing — 27. fundur,  12. sept. 2013.

Hagstofa Íslands.

14. mál
[14:17]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Þarna liggur nefnilega hundurinn grafinn. Svo virðist sem í það stefni að raunverulegar aðgerðir séu ekki á borðinu fyrr en ári eftir kosningar. Það mundu einhverjum þykja töluverð tíðindi í ljósi þess að menn töluðu um efndir og engar nefndir o.s.frv. Það liggur fyrir að skilningur hv. þingmanns er sami skilningur og minn, þ.e. að forsendur séu ekki fyrir hendi til að ákveða hverjar aðgerðirnar eiga að vera fyrr en þessi gögn liggja fyrir ásamt með tillögum höfuðstólshópsins nú í nóvember.

Þá er aftur spurning með þanþol samfélagsins og biðlund gagnvart slíkri nálgun miðað við það sem áður hefur verið sagt og áður hefur verið lofað. Ég vil ekki síður nefna, vegna þess að hv. þingmaður tekur hér fram stöðu leigjenda og við komum til með að ræða hana frekar í dag, að markmið aðgerða ríkisstjórnarinnar hafa fyrst og fremst snúist um að taka á höfuðstólshækkun lána en ekki að líta til annarra mikilvægra þátta svo sem stöðu þeirra sem eru á leigumarkaði, námsmanna, fyrirtækja og ég tala nú ekki um greiðsluvanda þeirra sem búa kannski ekki við svo mikla skuldabyrði heldur einfaldlega þann vanda að sjá í gegnum hver mánaðamótin á fætur öðrum og ráða við það.

Þarna er því hv. þingmaður algjörlega sammála því sem fram kemur í minnihlutaáliti nefndarinnar um að leggja þurfi skýrari grunn að því hvers konar gögnum við erum að safna. Minni hluti nefndarinnar hefur rétt út þá sáttarhönd að vilja koma sameiginlega að því að draga útlínur að því hvaða gögnum við söfnum og hvernig við nálgumst það.

Ég vil því biðja hv. þingmann að bregðast við því (Forseti hringir.) hvort hann telji það ekki farsælla að um þetta náist þverpólitísk sátt vegna þess að við erum jú sannarlega ekki að brenna inni (Forseti hringir.) ef marka má þanþol dagatals stjórnarflokkanna.