142. löggjafarþing — 27. fundur,  12. sept. 2013.

Hagstofa Íslands.

14. mál
[14:49]
Horfa

Frsm. minni hluta allsh.- og menntmn. (Helgi Hrafn Gunnarsson) (P):

Virðulegi forseti. Gerræði virkar. Það virkar til þess að halda yfirvöldum upplýstum um gang mála. Það virkar til þess að draga úr glæpatíðni. Með gerræði geta yfirvöld gert alls kyns hluti sem eru ómögulegir undir lýðræðislegu fyrirkomulagi. En við höfum samt sem áður sem vestrænt lýðveldi ákveðið að gerræði komi ekki til greina. Þess vegna höfum við ákveðið sem samfélag að fólk skuli njóta ákveðinna stjórnarskrárvarinna réttinda sem yfirvöldum er óheimilt — já, óheimilt — að setja lög í bága við nema samkvæmt þröngt skilgreindum skilyrðum undir kringumstæðum þar sem engin vægari meðul duga en nauðsyn krefur hins vegar til verndar ríkum almannahagsmunum, svo sem í stríðsástandi eða við náttúruhamfarir, ellegar séu réttindi borgaranna æðri yfirvöldum. Þannig virka vestræn lýðræðisríki eða þannig eiga þau í það minnsta að virka.

Það frumvarp sem hér er lagt upp með gengur í berhögg við eitt þessara gilda, nefnilega friðhelgi einkalífsins. Enn fremur er sú staðreynd óumdeild. Spurningin sem lögð er fyrir okkur er hvort frumvarpið standist þær kröfur sem gerðar eru þegar það á að takmarka réttindi almennings í landinu. Þessar kröfur eru skýr lagaheimild, veigamikil rök, brýnir ríkir almannahagsmunir og meðalhóf. Meðalhóf þýðir að aðgerðir mega ekki fara fram úr því sem nauðsynlegt er til að ná markmiðinu.

Ég lít á það sem staðreynd, virðulegi forseti, að hér sé meðalhófs ekki gætt vegna þess að ég hef sjálfur, sá sem hér stendur, ítrekað stungið upp á í pontu, og mun ítreka aftur í þessari ræðu, lausnum sem geta gengið skemur og gætu virkað til að ná markmiðinu. Við höfum einfaldlega ekki haft tíma til þess að ræða þær hugmyndir.

Mikilvægt er að staldra við og íhuga markmiðið enn og aftur. Markmið með frumvarpinu hefur breyst allnokkuð frá því í upphafi sem er í sjálfu sér áhyggjuefni, enda var það aldrei skýrt og er jafnvel ekki enn nógu skýrt til takmörkunar borgararéttinda. Ljóst er nefnilega að þetta frumvarp er hvorki forsenda þess að nefnd um höfuðstólslækkun húsnæðislána skili tillögum sínum né að þær aðgerðir sem hún kemur til með að mæla fyrir verði að veruleika. Eina sýnilega markmið þessa frumvarps í því sambandi er að meta áhrif af aðgerðum stjórnvalda eftir að þær aðgerðir hafa þegar farið af stað. Ég ítreka, feitletra og undirstrika þennan mikilvæga punkt. Upplýsingarnar sem þessu frumvarpi er ætlað að afla verða ekki notaðar og er ekki ætlunin að nota þær til þess að ákveða aðgerðir stjórnvalda til lækkunar höfuðstóls húsnæðislána. Þetta kom fram á fundi hv. allsherjar- og menntamálanefndar með nefnd um lækkun höfuðstóls húsnæðislána.

Stenst þetta frumvarp þær ríku kröfur sem gerðar eru þegar takmarka á stjórnarskrárbundin réttindi? Svarið er að mínum dómi: Nei. Tilefnið er ekki nógu ríkt og aðferðin er ekki nógu afmörkuð til þess að réttlæta það lagafrumvarp sem hér er til umræðu. Undir þetta tóku fjölmargir umsagnaraðilar.

Það er því engin ástæða til að afgreiða frumvarpið á þessu þingi með slíkum ofsa. Mun nær lagi væri að bíða með þetta mál þar til við höfum haft tíma til að vinna það almennilega og þá í samræmi við réttindi borgaranna til friðhelgi einkalífs.

Við öll sem sitjum í hv. allsherjar- og menntamálanefnd ítrekuðum við hvert fótspor að við vildum öll ólm gera upplýsingasöfnun og upplýsinganýtingu yfirvalda auðveldari og skilvirkari. En þetta er ekki rétta leiðin, þetta frumvarp gengur of langt miðað við tilefnið.

Það er engin skömm í því að láta vont mál niður falla og taka það upp að nýju. Í því felst enginn áfellisdómur. Eru það hin pólitísku áhrif sem stjórnin hefur áhyggjur af? Hvað vill fólk frá okkur? Það vill að við vinnum meira saman þegar við erum ósátt. Ég get lofað hæstv. ríkisstjórn að hún verði lofuð fyrir að bíða með þetta mál fram á haustþing til að við vinnum það almennilega. Kannski fylgið aukist að nýju.

Það felst hins vegar mikill áfellisdómur í því að hleypa máli í gegn sem gerir lítið úr einum af mikilvægustu réttindum borgaranna, eingöngu til þess að fylgja tímabundinni starfsáætlun þingsins og óþolinmæði þingmanna.

Vel á minnst, frumvarpið hefur stökkbreyst að minnsta kosti tvisvar sinnum. Strax í sumar var orðið ljóst að það kæmist ekki í gegn vegna þess að það var einfaldlega of illa gert og stóðst illa skoðun. Þá kom ný útgáfa sem því miður var með sömu vanköntum og sú fyrri þótt skilgreiningum hefði verið bætt við og lagatæknileg vandamál löguð. Sú útgáfa var engu skárri hvað varðaði meðalhóf, friðhelgi einkalífs eða markmið. Þá kom enn ein útgáfan sem nær enginn tími fékkst til þess að ræða. Mig langar að minnast sérstaklega á orð hv. þm. Péturs H. Blöndals þegar hann skoraði á svokallaða stjórnarandstöðu, eða minni hluta, að vinna þetta mál yfir helgina. Það eru allar líkur á því að málið fari fyrir nefnd í kvöld. Vandinn sem við stöndum frammi fyrir er að við fáum ekki tíma til þess að vinna það almennilega. Það eru hugmyndir á borðinu, við höfum bara ekki tímann. Það er út af starfsáætlun þingsins, það er ekki af neinum pólitískum ágreiningi um markmið. Við gætum alveg unnið þetta saman, það eina sem við þurfum er tími. Það er það eina sem við fáum ekki hérna. Að öðru leyti vill hv. allsherjar- og menntamálanefnd gjarnan laga frumvarpið eftir bestu getu. Vandinn við þetta frumvarp er að það er ónýtt, það er ekki hægt að laga það. Það þarf að byrja vinnuna upp á nýtt. Það er grundvallarvandinn við frumvarpið. Það er ekki hægt að drullumixa borgararéttindi inn í ónýtt frumvarp. Það verður að hafa borgararéttindin að leiðarljósi frá upphafi þegar svona mál eru til umræðu.

Gleymum því ekki hvað friðhelgi einkalífsins er. Það er ástæða fyrir því að lögreglan má ekki fara inn á heimili hv. þingmanna og róta þar í þeirra persónulegu eigum eftir geðþótta. Það er ákveðin ástæða fyrir því. Sú ástæða heitir friðhelgi einkalífsins. Nú spyr ég: Ef afkastamæling ríkisstjórnarinnar er nógu góð ástæða til að ganga á friðhelgi einkalífsins, hvað með fíkniefnavandann? Eru það ekki ríkir almannahagsmunir að uppræta fíkniefni úr þjóðfélaginu? Ef svo er, væri okkur heimilt að setja lög sem heimila lögreglumönnum að leita heima hjá hverjum borgara þessa lands til þess að tækla þann vanda? Ef svarið er nei í því tilfelli hlýtur það að vera nei í þessu tilfelli. Það hlýtur að vera. Annars veit ég ekki hvað við erum að tala um þegar við tölum um friðhelgi einkalífsins, eins og hv. þm. Óttarr Proppé nefndi. Friðhelgi einkalífsins er ekki eitthvert grín, það eru ekki sett lög um hana að ástæðulausu. Það eru mjög mikilvægar ástæður fyrir því.

Ég verð að minna aftur á að í reynd erum við að tala um tölfræði í gagnasmíð. Við erum hér á hinu háa Alþingi, í alvöru talað, að velta fyrir okkur mikilvægi tölfræðigagna versus mannréttindi. Þá spyr ég: Ef myndun tölfræðigagna til hagstjórnar eru næg ástæða til að ganga inn á friðhelgi einkalífsins, hvað er ekki nógu góð ástæða? Undir hvaða kringumstæðum mundu stuðningsmenn þessa frumvarps segja: Nei, þetta gengur of langt, mannréttindin eru mikilvægari en gagnasöfnun yfirvalda?

Vel á minnst, það má spyrja að fleiru. Freistnivandinn. Ein af grundvallarforsendum þessa frumvarps er að grunngögnin sem Hagstofunni er ætlað að safna verði ávallt eingöngu til staðar hjá Hagstofunni og fari aldrei þaðan, hvorki til annarra stofnana eða ráðuneyta né óprúttinna aðila utan stjórnsýslunnar, úr þeim verði unnar tölfræðiskýrslur sem síðan verða birtar og gögnunum þá eytt einu og hálfu ári eftir notkun. Eins og fram kemur í frumvarpinu verða þessi gögn samkeyrð við önnur gögn sem Hagstofan hefur nú þegar aðgang að til þess að gera þau innihaldsríkari.

Þá má spyrja: Hvað gerist þegar einhverjum dettur í hug að nota þessar upplýsingar til eftirlits? Verður þá sagt nei?

Nú víkjum við aftur að ríkum almannahagsmunum. Er fjármálaeftirlit ekki ríkir almannahagsmunir? Er það ekki það sem klikkaði fyrir hrun? Burt séð frá hvað núverandi ríkisstjórn finnst um það, hvað finnst þeirri næstu eða þeirri þar á eftir? Hvað sem þeim finnst um það er ljóst að þær munu hafa fordæmi, mjög ljótt fordæmi.

Nú skulum við ekki dvelja of mikið í framtíðinni heldur líta aðeins til nútíðar. Þrýstingurinn á að nýta þessi gögn í mun viðameiri tilgangi er ekki hugsanlegt atvik sem gæti mögulega gerst einhvern tímann seinna, hann er byrjaður. Atvikið gerðist í nefnd í sumar og síðan aftur í haust. Nú vil ég alls ekki lasta Seðlabanka Íslands þar sem hann er með mikilvægari stofnunum landsins, ég hef ekkert út á hann að setja í sjálfu sér, en í áliti hans á málinu kom fyrst og fremst fram sú gagnrýni að hann fengi ekki beinan aðgang að gagnagrunninum líka. Á fundi okkar í hv. allsherjar- og menntamálanefnd gat Seðlabankinn síðan talið upp ótal ástæður fyrir mikilvægi þess og sumt af því var þó nokkuð meira sannfærandi en meint þörf Hagstofunnar til að vinna með þessi gögn. Þetta nefni ég ekki til þess að lasta Seðlabanka Íslands því að auðvitað vill hann bara hafa bestu tækin til að vinna sína vinnu. Það er líka punkturinn — auðvitað vill hann gögnin. Snjóboltinn er þegar farinn af stað og frumvarpið er ekki einu sinni orðið að lögum.

Mér sýnist eina ástæðan fyrir því að ekki hafi komið til tals enn þá að gefa Seðlabankanum sömu heimild og hér er lagt upp með að gefa Hagstofunni vera sú að ein af meginforsendum þess að gefa Hagstofunni þetta vald til að byrja með er að það verði einungis afmarkað við Hagstofuna og engan annan. Snjóboltinn er nú þegar byrjaður að rúlla. Ég er með þessa mynd, þetta er teikning. [Þingmaðurinn réttir upp mynd.]

Auðvitað hentar yfirvöldum vel að vita sem mest um sem flesta. Yfirvöld sem eru alltaf svo mikilvæg í öllu sem þau taka sér fyrir hendur geta vel notað þennan grunn víðar en til tölfræðigerðar. Mér er spurn hvers vegna þau ættu ekki að gera það í framtíðinni. Ef þetta frumvarp stenst stjórnarskrá, hvar í ósköpunum er línan? Hvað geta þau ekki gert? Til hvers erum við með friðhelgi einkalífsins þar? Það er á okkar ábyrgð að lögin standist stjórnarskrá og séu í samræmi við stjórnarskrárbundin réttindi borgaranna. Ef við samþykkjum þetta frumvarp, sama hvað okkur langar til að gera, höfum við brugðist þeirri ábyrgð.

Mig langar að víkja aðeins að lausnunum. Hér eru að minnsta kosti tvö verkefni komin saman í eitt, annars vegar að meta áhrif aðgerða vegna skuldavanda heimilanna og hins vegar að gera hagskýrslugerð almennt auðveldari og betri. Eins og ég hef ítrekað sagt er hægt að gera þetta með upplýstu samþykki. Það þyrfti aðra útfærslu, það þyrfti að hafa leið. Hv. allsherjar- og menntamálanefnd þyrfti að tala við marga umsagnaraðila, forritara, tölvunarfræðinga, öryggissérfræðinga, Seðlabankann, Hagstofuna — við þyrftum að tala við marga til að komast að því hvernig við mundum útfæra þetta. Með upplýstu samþykki getur vel verið að okkur takist að ná því markmiði að díla við þetta meinta neyðarástand. Við getum það alveg, við þurfum bara tíma. Það er þess vegna sem ég lít á það sem staðreynd að þetta frumvarp standist ekki meðalhóf. Við höfum ekki rætt vægari útfærslur að sama markmiðinu. Það er staðreynd að við höfum ekki gert það. Það er staðreynd að það þurfi að gera það. Það er því staðreynd að þetta frumvarp stenst ekki stjórnarskrá. Rengi mig hver sem betur getur.

Þegar kemur að því að fá upplýst samþykki verð ég að viðurkenna, með fullri virðingu fyrir háttvirtum Framsóknarflokki, að ég kaus ekki Framsókn. Ég kæri mig ekki um neina hjálp, ég þarf engar skuldaniðurfellingar, ég er í góðu lagi. Takk samt. Það eina sem ég vil eru réttindi mín, ég vil borgararéttindin mín. Ég vil friðhelgi mína. Ég er ekki reiðubúinn að fórna henni fyrir einhvern annan. Það er ekki í boði, það er ekki til umræðu, ekki frá minni hlið séð. Mér finnst lágmark að ég sé spurður. Það eru til margar útfærslur af því. Við gætum til dæmis spurt þegar fólk skilar inn skattskýrslu sem það þarf að gera. Við gætum opnað heimasíðu og notað ÍS-lykilinn eða RSK-lykilinn þannig að fólk skrái sig einfaldlega inn á síðu og segi: Ég vil vera með vegna þess að mig vantar peninga frá yfirvöldum eða að Framsókn standi við loforð sín. Það er hægt að gera það. Tæknin er til staðar, hún er í notkun. Hún er í notkun hjá skattinum, hún er í notkun hjá þjóðskránni. Það er ekkert sem stendur í vegi fyrir því nema bévítans tímaskorturinn. Tímaskorturinn virðist vera hér eingöngu af, hvað á maður að segja, mildum pólitískum ástæðum. Það er ekki einu sinni vegna pólitísks ágreinings þannig séð heldur vegna þess að við höfum ákveðna starfsáætlun og þurfum að ljúka þessu frumvarpi núna því að að annars verður pólitískt uppnám — eða eitthvað, ekki vegna þess að það þurfi endilega að gerast núna. Það er ekki ástæðan fyrir því.

Ég legg til að við gerum þetta en við verðum að gera það almennilega. Ef við tökum þetta upp á næsta þingi getum við gert það almennilega. Ég heyri engan segja: Nei, hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson, þetta er rangt hjá þér, við getum ekki gert það. Af hverju heyri ég engan segja það? Vegna þess að það er ekki satt, við getum gert þetta síðar. Ég legg til að við gerum það. Við gerum það með borgararéttindi að leiðarljósi, ekki óþolinmæði þingmanna.