142. löggjafarþing — 27. fundur,  12. sept. 2013.

Hagstofa Íslands.

14. mál
[15:26]
Horfa

Frsm. minni hluta allsh.- og menntmn. (Helgi Hrafn Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Brynjari Níelssyni svarið. Sá sem hér stendur hefur viðrað hugmyndir bæði á fundum hv. allsherjar- og menntamálanefndar og hér í pontu á hinu háa Alþingi og hefur talað um það í fjölmiðlum en enginn hefur enn þá sagt honum að það virki ekki. Satt best að segja er ég ekki alveg sannfærður um að allir skilji nákvæmlega hvað ég er að segja stundum, það er náttúrlega það sem fylgir því að vera tölvunörd, en með hliðsjón af því að hugmyndir hafa komið fram og hvergi hefur verið baunað á þær, hvorki laust né fast, spyr ég hvort það hafi einhver áhrif á afstöðu hv. þm. Brynjars Níelssonar gagnvart meðalhófi í þessu máli.