142. löggjafarþing — 27. fundur,  12. sept. 2013.

Hagstofa Íslands.

14. mál
[15:29]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna og vangavelturnar sem sannarlega varða kjarna málsins og það mikilsverða hlutverk sem við höfum hér með höndum, þ.e. að ganga varlega um grundvallarlöggjöf lýðveldisins og ekki síst að því er varðar friðhelgi einkalífsins og persónuvernd. Mig langar að spyrja, af því að hv. þingmaður segir að ef þingið meti það þannig að það sé í lagi að takmarka friðhelgina á grundvelli þeirra almannahagsmuna sem hér eru skilgreindir — ég heyri að hv. þingmaður er ekki að velta þessum hlutum fyrir sér í fyrsta sinn og það er áhugavert fyrir okkur, sem hér stöndum frammi fyrir því að taka afstöðu í málinu, að heyra reifun hans á því og ég spyr því: Telur þingmaðurinn sjálfur að það sé í lagi að takmarka friðhelgina sem hér er lagt til að takmarka á grundvelli þeirra almannahagsmuna sem skilgreindir eru?

Þingmaðurinn veltir því upp að málið hafi skánað, það hafi verið verra og það hafi rænt hann svefni til að byrja með en nú sé hann farinn að sofa. Mér finnst áhugavert að heyra nákvæmlega hvaða þættir það eru sem veittu honum nætursvefninn í þeim efnum. Mér heyrist hann kannski ekki vera alveg kominn þangað að hvíldin verði honum fullkomlega aðgengileg, þ.e. næturhvíldin hverja nótt. Þetta eru það stór mál að mér finnst mikilvægt að heyra hans útlistun og reifun á þeim sjónarmiðum sem hér eru undir.