142. löggjafarþing — 27. fundur,  12. sept. 2013.

Hagstofa Íslands.

14. mál
[15:31]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það truflar mig alltaf þegar verið er að takmarka friðhelgi einkalífsins og persónuvernd. Það truflar mig alltaf en stundum geri ég mér þó grein fyrir því að það kunni að vera réttlætanlegir hagsmunir til þess að gera það. Ég mun meta það í þessu tilviki að betur athuguðu máli hvort ég tel að svo sé.

Það er ákveðið vandamál í kringum allt þetta vegna þess að stjórnarskráin heimilar okkur að takmarka friðhelgi einkalífsins við vissar aðstæður. Sá sem takmarkar það metur sjálfur almannahagsmuni. Það er bara þannig. Það erum við að gera og það ber okkur að gera. Ég er bara að óska eftir því almennt, burt séð frá þessu frumvarpi, að menn fari afskaplega varlega í það og ræði þetta mjög vel og velti því fyrir sér. Eru þetta slíkir almannahagsmunir? Getur yfir höfuð talist almannahagsmunir að ná einhverjum pólitískum markmiðum? Það er ein spurningin til dæmis. Erum við ekki alltaf að reyna að gera eitthvað gott fyrir heimilin, fyrir fólkið í landinu og getum við þá alltaf í þeirri vegferð takmarkað persónufrelsið? Þessu þurfum við að velta fyrir okkur og þess vegna sagði ég hér í upphafi að það væri skynsamlegt að taka einhvern tímann þessa umræðu almennt, kannski um stjórnarskrána, gildi hennar. Er hún bara platplagg þegar kemur að þessum grundvallarmannréttindum því að við getum alltaf metið almannahagsmuni eins og okkur sýnist? Eins og ég hef haldið ræður um áður þá finnst mér oft og tíðum þessi ákvæði stjórnarskrárinnar (Forseti hringir.) lítils virði þegar upp er staðið.