142. löggjafarþing — 27. fundur,  12. sept. 2013.

staðan á leigumarkaðinum.

[16:07]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka upphafsmanni þessarar umræðu fyrir hana og ráðherra fyrir svörin sem hún veitti. Ég þakka þeim báðum, þingmönnum Framsóknarflokksins, fyrir þau jákvæðu orð sem þær létu falla í garð þeirrar þingsályktunartillögu sem við þingmenn Samfylkingarinnar höfum lagt fram á Alþingi.

Ég held að það kunni að vera okkur gott tækifæri þegar sú tillaga verður rædd hér á þingi á eftir og vísað til nefndar, að við reynum að nýta þá samstöðu sem er augljóslega í þinginu og ná að afgreiða hana í einu formi eða öðru þannig að fyrir liggi staðfestur vilji þingsins á þessum stutta stubbi með fyrirmælum til stjórnvalda og verkefnaskrár. Ég er alveg sammála því sem hæstv. forsætisráðherra sagði hér í sumar þegar kom að skuldamálum heimilanna, það er ríkisstjórninni auðvitað stuðningur að hafa skýrt bakland úr þinginu fyrir verkefnum sem unnið er að á vettvangi ríkisstjórnar.

Í þessu stutta innskoti hef ég lítil færi á að rekja einstaka þætti og mun gera það betur þegar kemur að því að mæla fyrir þingsályktunartillögunni síðar í dag. Það er auðvitað við fjölþættan vanda að eiga. Hann hefur orðið verri vegna minnkandi framboðs húsnæðis á höfuðborgarsvæðinu vegna aukinnar útleigu íbúða til ferðamanna. Vandinn er viðvarandi víða um land og hann verður að leysa þar sem sveitarfélög hafa ekkert húsnæði á lausu og virkur vinnumarkaður gengur ekki almennilega upp því að engin leið er til að fá fólk til að nýta sér tækifærin sem myndast í sveitarfélögunum. Ég er nýbúinn að vera á ferðalagi um allt norðanvert Snæfellsnes og sunnanverða Vestfirði og þar er sama sagan í hverju einasta sveitarfélagi. Það er ekkert húsnæði til reiðu, það er engin leið að fá fólk til verkefna, hvort heldur er tímabundinna eða langvarandi, vegna þess að fólk fær ekki möguleikann á að koma sér fyrir og láta á það reyna hvort það getur hugsað sér að búa á þessum stað.

Allt eru það atriði sem við verðum að horfa á í heildarmyndinni.