142. löggjafarþing — 27. fundur,  12. sept. 2013.

staðan á leigumarkaðinum.

[16:10]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. málshefjanda, Elsu Láru Arnardóttur, fyrir mjög þarfa umræðu. Vandi leigutaka er afar mikill. Skortur er á leiguhúsnæði og leiga fer hækkandi. Margar fjölskyldur búa inni á ættingjum og vinum og fréttir berast af ólöglegu húsnæði sem er notað til útleigu og íbúðar.

Víða um Evrópu er mikill húsnæðisvandi. Fólk virðist ekki hafa efni á því að búa í því húsnæði sem er í boði, hvorki til leigu né kaups. Ég held að skoða þurfi alla kostnaðarþætti sem búið er að líma á íbúðarhúsnæði, fasteignagjöld sveitarfélaganna, skatta á húsaleigu, stimpilgjöld o.s.frv. Það þarf að skoða alla þessa þætti.

Síðan þarf að skoða byggingarkostnaðinn, byggingarreglugerðir eins og hér hefur verið nefnt og er verið að skoða. Það þarf líka að skoða raunvexti, framboð á lánsfé og húsaleigubætur og aðra styrki.

Hér á landi hefur lítið verið byggt af íbúðarhúsnæði síðan fyrir hrun. Fimm árgangar af ungu fólki hafa ekki fundið húsnæði, það hefur ekki verið byggt fyrir þá. Þetta eru kannski um 10 þúsund heimili.

Svo koma áhrif af ferðaþjónustunni sem hefur verið bent á.

Verð á íbúðum og leiga á íbúðarhúsnæði hefur hækkað vegna skorts og lítils framboðs á íbúðum. Það sem þarf að gera er að örva framboð á lóðum, hvetja til fjárfestinga í íbúðum og gera alla þá ferla eins einfalda og hægt er.

Fólk sem sækir um þær fáu íbúðir sem eru til leigu keppir við tugi annarra sem eru að sækja um sömu íbúð. Þá reynir á bankaábyrgð í fyrirframgreiðslu sem margir hafa ekki. Þeir sem lenda á vanskilaskrá eiga enga möguleika á að fá íbúð. Þetta er mjög alvarleg staða.