142. löggjafarþing — 27. fundur,  12. sept. 2013.

staðan á leigumarkaðinum.

[16:12]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir þessa þörfu og mikilvægu umræðu, en eins og við fáum að heyra í fréttum þessa dagana erum við að kynnast ýmsum langtímaafleiðingum efnahagshrunsins á Íslandi sem átti sér stað árið 2008, ef einhver skyldi hafa gleymt því, og afleiðingarnar sjáum við í heilbrigðiskerfinu, menntakerfinu og ekki síst í húsnæðiskerfinu. Hvers vegna ekki síst í húsnæðiskerfinu? Að mörgu leyti var húsnæðiskerfið veikast þegar litið er til velferðarþátta samfélagsins vegna þess að á öryggisnetið sem það myndar höfðu verið rifin göt. Þetta var gert undir aldarlokin þegar verkamannabústaðakerfið var eyðilagt, var aflagt, sem veitti tekjulitlu fólki lán á 1% vöxtum, og síðan voru aðrir félagslegir þættir einnig veiktir.

Á undanförnum árum höfum við ekki hækkað húsaleigubætur að neinu marki. Það var gert lítillega á þessu ári, um 4 þús. kr. í tveimur áföngum, í byrjun árs og síðan um mitt ár, en að öðru leyti hafa þær ekki hreyfst. Á sama tíma hafa Félagsbústaðir í Reykjavík hækkað leiguna um 40%. Þar eru að lengjast biðraðir eftir leiguhúsnæði.

Það sem ríkisstjórnin hefur því miður gert er að taka ákvörðun um að hætta sérstökum vaxtabótum sem við létum fjármálafyrirtækin greiða til að létta undir með mjög tekjulitlu fólki eða skuldsettu fólki. Ég spyr hvort það eigi að endurskoða þá ákvörðun. Það þarf að hækka húsaleigubætur. Hvaða áform eru uppi um það? Stendur til að gera það? (Forseti hringir.) Og það þarf að hækka laun, lægstu laun og laun millitekjufólks einnig. Þetta eru allt (Forseti hringir.) þættir sem þarf að horfa til.