142. löggjafarþing — 27. fundur,  12. sept. 2013.

staðan á leigumarkaðinum.

[16:16]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Já, það er rétt sem kom fram hér hjá hæstv. ráðherra, ég er nokkuð mikill sérfræðingur í leigumálum og því að vera leigjandi. Það hefur eiginlega verið ein samfelld martröð að vera leigjandi. Það er ekkert öryggi. Ég man eftir því þegar ég flutti fyrst til Reykjavíkur með móður minni þegar ég var 12 ára, þá voru ekki einu sinni til leigusamningar. Það var fyrir atbeina eins einstaklings sem beitti sér fyrir málefnum leigjenda, Jóns heitins frá Pálmholti, að við fengum leigusamninga sem lögformlegt skjal. Það er ótrúlegt að eftir öll þessi ár sé ástandið enn eins og það er. Það er ótrúlegt.

Ég hef svo mikla samúð með fólki sem fer núna á milli að skoða húsnæði sem kannski 30–40 manns eru að skoða og grátbiður því að annars lendir það kannski á götunni með börnin sín. Því mun ég svo sannarlega styðja tillöguna frá Samfylkingunni um bráðaaðgerðir, en mig langar fyrst ég hef þennan ágæta hæstv. ráðherra hér í salnum að spyrja hana um hennar sýn á aðgerðir til að bregðast við bráðavandanum. Mig langar að hvetja hæstv. ráðherra til dáða og lýsa yfir einlægum stuðningi við aðgerðir sem taka á bráðavandanum en jafnframt á langtímamálinu því að það er svo mikilvægt að við séum ekki alltaf bara að bregðast við bráðavanda heldur höfum einhverja framtíðarsýn í þessum málaflokki.

Ég hlakka til að sjá hvað kemur úr ráðuneytinu og vonast til þess að við getum hjálpað þessum risastóra hóp (Forseti hringir.) sem er að bíða eftir því að við gerum eitthvað fyrir hann.